Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Mánudaginn 26. maí 2008, kl. 12:45:17 (8045)


135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[12:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að spyrja hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að því sjálfa hvað í þessum orðum hennar felst þar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir flokkssystir hennar gat ekki svarað því, vegna þess að hér er það gagnrýnt mjög harðlega að í breytingartillögum meiri hlutans sé í litlu sem engu komið til móts við harðorð mótmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Þegar menn fullyrða slíkt þá skulu þeir líka vita hvað þau harðorðu mótmæli fólu í sér vegna þess að þau fólu það akkúrat í sér að við skyldum ekki leyfa þeim að selja auðlindirnar á markaði. Það var þungamiðjan í gagnrýni þeirra. Ég lít því svo á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð (Gripið fram í.) sé að einhverju leyti að taka undir það eða hafi ekki lesið heima þegar litið er á þessi skilaboð.

Ég verð líka að spyrja hv. þingmann vegna þess að mér fannst hún svolítið óskýr í máli sínu áðan varðandi vatnalögin. Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, hvert beri að stefna í þeim efnum og það vitum við, en það sem við erum hins vegar að gera hér er að breyta ákveðnum greinum vatnalaga til að tryggja eignarhald á orkuauðlindum í opinberri eigu og þá þeim sem snúa að vatni eins fljótt og verða má. Það er markmiðið með þessu. Ég held að hv. þingmaður geti verið sammála okkur í því. Ég skildi hins vegar hv. þingmann þannig að hún vildi að við lykjum vinnu vatnalaganefndarinnar og biðum eftir að rammaáætlunarnefndin, sem á að skila í lok árs 2009, kláraði sína vinnu áður en við gerðum þá breytingu sem þetta felur í sér. Skildi ég hv. þingmann rétt? Ef ekki væri kannski ágætt að hún kæmi því hér á framfæri vegna þess að annars mundi ég ganga héðan út og telja að það væru tveir aðilar í landinu sem vildu að við frestuðum þessu máli og það væru Vinstri grænir og Viðskiptaráð. Það þótti mér of ótrúlegt til að geta gengið með þá (Forseti hringir.) hugsun út af þessum fundi.