Innheimtulög

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 13:03:37 (8298)


135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[13:03]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni síðustu orða þingmannsins held ég að það sé alveg rétt að á síðustu og verstu tímum hefur því miður myndast rík þörf á innheimtulögum vegna þess að með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar munu margir verða gjaldþrota, því miður, á næstu mánuðum. Það er bara einfaldlega staðreynd. Vextir hækka, kröfur hækka, mun fleiri munu eiga í vandræðum með að greiða. Ég held reyndar að ekki hafi verið settur varnagli fyrir lélega efnahagsstjórnun en það má kannski alveg segja það að vissu leyti.

Þetta er góð löggjöf, ég vil að það komi skýrt fram. Það er mjög gott að meginregla sé um góða innheimtuhætti. Ég vil samt að það komi fram að í stærstum hluta þeirra sem innheimta kröfur eru góðir innheimtuhættir viðhafðir, það þarf að vera skýrt í umræðunni. Ekki má koma hingað upp og segja að þetta hafi allt verið í kaldakoli og það hafi almennt tíðkast hjá bönkum og fleirum að níðast á skuldurum.

Að sjálfsögðu er það þannig að vextir og fleira er eitthvað sem við eigum afar erfitt með að sætta okkur við. En við sem erum á Alþingi verðum að vera sanngjörn. Varðandi innheimtuviðvörun er það einfaldlega þannig að almennt tíðkast það í innheimtuferli að láta slíkt af hendi og ég veit, bæði sem aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og líka sem lögmaður, að það hefur verið meginregla hingað til. En það er allt í lagi að festa það í lög og þess vegna fagna ég því, og ég fagna þessari lagasetningu sérstaklega (Forseti hringir.) og tel hana vera til mikilla bóta þó að ég hafi sagt frá þeim fyrirvörum sem ég gerði grein fyrir.