Símhleranir á árunum 1949 til 1968

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 18:19:33 (8347)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Friðhelgi einkalífs hvers einstaklings er vernduð í stjórnarskránni. Ég verð að segja eins og er að ég hafði aldrei, þar til á þessari öld, leitt hugann að því að hér væru eða hefðu verið stundaðar opinberar persónunjósnir á fólki, hvaða stjórnmálaskoðun sem menn höfðu, hvort sem það voru sósíalistar eða þeir sem kallaðir voru kommúnistar eða þeir sem störfuðu í verkalýðshreyfingunni á þessum árum.

Það hefur hins vegar komið í ljós að haldið var uppi njósnum, símahlerunum hjá ákveðnum einstaklingum, og ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég vænti þess að ríkisstjórnin sjái ástæðu til að biðja þá einstaklinga afsökunar sem urðu fyrir þessum hlerunum og njósnum, afsökunar á því sem stjórnvöld stóðu að gagnvart þeim á þessum tíma.

Ég verð einnig að segja að ég er afar undrandi á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra áðan og skil ekki hvers vegna menn geta ekki tekið afstöðu til þess að eðlilegt sé að biðja þá sem hafa orðið fyrir misrétti afsökunar. Það eiga stjórnvöld að gera vegna þeirra athafna sem viðhafðar voru í fortíðinni.