Símhleranir á árunum 1949 til 1968

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 18:28:47 (8351)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:28]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er nokkuð sem við verðum að meta út frá því að það laut ekki þeirri stjórnskipan sem við höfum í dag og það orkar auðvitað tvímælis hvort stjórnvöld samtímans geti beðist afsökunar á því að stjórnsýsla hafi verið gölluð fyrir áratugum síðan.

Hitt er í mínum huga enginn vafi að við þurfum að læra af þessu máli og sú nefnd sem tók saman vandaða skýrslu um það hvernig haga skuli upplýsingagjöf í tengslum við hleranirnar skilaði góðu starfi. Ég held að við þurfum aðra nefnd sem fer í gegnum það hvernig við getum lært af þessu máli og hvernig við þurfum að haga okkar stjórnsýslu í samtímanum út frá þeim lærdómi. Ég held að það sé mjög margt sem stjórnvöld gætu þurft að biðjast afsökunar á ef við ætlum að fara ofan í allt það sem miður hefur farið í sögunni. Það getur vel verið að það dragi úr sársauka einhverra en við skulum vera þess meðvituð að kaldastríðstíminn var raunverulegur ógnartími og þá stóð hinum vestrænu löndum raunverulega ógn af erlendri ógnarstjórn í austri þannig að það skiptir máli að stjórnvöld þurftu að hafa heimildir. Það skiptir líka máli hvort þær heimildir voru misnotaðar í þessu tilviki út fyrir það sem voru beinir hagsmunir íslenska lýðveldisins yfir hagsmuni kalda stríðsins og hagsmuni mótaðilans, þ.e. NATO og Bandaríkjanna í þessu kalda stríði. Þar eru alls ekki öll kurl komin til grafar enn. Það er langt í frá að sagan sé búin að dæma þessa hluti, það er svo langt í frá að við höfum allt í höndunum. En eitt af því sem þessi umræða kallar eftir er að (Forseti hringir.) aðgengi að þessum gögnum verði bætt og við gerum sem mest í því gagnvart þessu fólki að upplýsa þetta sem allra best.