Stimpilgjald

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 19:30:38 (8367)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:30]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Varðandi þessa almennu umræðu um skattalækkanir vil ég minna á það, herra forseti, að skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir úr 45% niður í 18% og stefnt er að því að fara niður í 15%. Á því tímabili sem þeir voru lækkaðir úr 45% niður í 18%, sem ég ætla að vona að hv. þingmaður samþykki að sé lækkun, hafa tekjur ríkissjóðs af þessum sama skattstofni margfaldast.

Það sama á við um laun almennings. Við höfum lækkað skatta á almenning. Prósenturnar hafa verið lækkaðar, hátekjuskatturinn hefur verið felldur niður o.s.frv. Og hvað hefur gerst? Laun almennings hafa hækkað svo umfram verðlag að þess finnast engin dæmi í öðrum löndum. Ef hv. þingmaður getur nefnt mér eitt land þar sem laun hafa hækkað meira en á Íslandi síðustu 10–15 árin verð ég ánægður því að ég er alltaf að bíða eftir því dæmi.

Svo er það spurningin: Er það skattalækkun eða skattahækkun þegar tekjur ríkissjóðs af sköttum aukast stöðugt vegna þess að kakan stækkar? Eða er það lækkun á prósentu? Ég vil spyrja hv. þingmann: Er það skattahækkun þegar atvinnulífið þarf að borga miklu meiri skatt af hagnaði með miklu lægri prósentum? Eða er það skattalækkun af því að prósentan lækkaði?

Það sem gerist, og það sem ruglar menn kannski í ríminu, er að kakan stækkar mikið. Stofn tekjuskatts einstaklinga hefur t.d. hækkað mikið umfram verðlag. Laun almennings hafa hækkað mjög mikið umfram verðlag þannig að sá skattstofn gefur ríkissjóði miklu meiri tekjur. Er það skattalækkun eða skattahækkun þegar prósentan sem lögð er á almenning lækkar? Þetta er ekki einfalt mál og það hefur verið markmið ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins undanfarinn áratug og lengur að stækka kökuna.