Sjúkratryggingar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 11:10:46 (8445)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:10]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gerði hér grein fyrir nefndaráliti okkar 2. minni hluta heilbrigðisnefndar og því mun ég í örfáum orðum bæta við forsöguna. Eins og komið hefur fram þá byggir þetta frumvarp m.a. á lögum um heilbrigðisþjónustu sem við afgreiddum hér síðastliðið vor. Það frumvarp var einnig afgreitt á stuttu vorþingi á síðustu dögum þingsins á svo miklum spretti að ekki vannst ráðrúm til að ræða það hér eins og hefði þurft að gera. Það er ekki hægt að vísa í ræður. Það er hægt að vísa í atkvæðaskýringar ef maður ætlar að fara í söguskýringar um afstöðu flokkanna og í atkvæðagreiðslum.

Þegar við stígum það skref að fara í markvissa kerfisbreytingar á eins viðkvæmri þjónustu og heilbrigðisþjónustan er þá er það skylda okkar á hinu hv. Alþingi að gefa okkur þann tíma sem við þurfum til þess að fara vel yfir málið. Það er ekki bara að það mælist í löngum ræðum. Það mælist ekki síst í góðum undirbúningi af hálfu ráðuneytanna að hingað komi inn vönduð frumvörp og að nefndirnar hafi þann tíma sem þarf til þess að senda út umsagnir, gefa umsagnaraðilum góðan tíma til þess að meta málið og skila inn vönduðum umsögnum. Heilbrigðisnefnd þarf að hafa tíma til að fara yfir þær umsóknir sem berast og leggja mat á afleiðingar þeirra frumvarpa sem verið er að afgreiða. Ég leyfi mér að fullyrða, hæstv. forseti, að til þess vannst hvorki tími á síðastliðnu vori né núna varðandi frumvarp um heilbrigðisþjónustu.

Það má segja að bæði þessi frumvörp beri yfirbragð þeirrar aðferðafræði sem beitt hefur verið markvisst víða í Evrópu og af því að við höfum sérstaklega talað um Bretland þá var það alveg markvisst hvernig farið var inn í breska heilbrigðiskerfið með markaðssérfræðingum frá Bandaríkjunum. Kerfið var byggt upp á almannaþjónustu eins og okkar en það var smám saman molað niður með því að koma með ósköp litlar en markvissar breytingar þannig að almenningur átti erfitt — og hefur átt erfitt — með að átta sig á því hvaða breytingar var verið að gera, hvert stefndi. Þetta voru litlar, tæknilegar breytingar. Það er gott að fá fjölbreytta þjónustu, það er gott að spara, það er gott að fara vel með fjármagnið en almenningur hafði ekki möguleika til að meta hvert ferðinni var heitið.

Núna hefur almenningur í Englandi möguleika á að lesa hvert ferðinni var heitið. Og víðast hvar í Englandi er nú bylgja mótmæla gegn þeirri þjónustu, gegn þeim breytingum sem gerðar hafa verið og krafa um bætta þjónustu. Það kerfi sem komið var á hefur molað niður þá félagslegu þjónustu sem hafði verið í Bretlandi. Núna er búið nær alfarið að markaðsvæða það. Það hefur vakið þessi viðbrögð. Mótmæli eiga sér ekki stað í Írlandi og Skotlandi því að íbúar í þessum löndum áttuðu sig á því hvert stefndi og vildu þetta ekki. Þeir kusu gegn því þannig að þeir stöðvuðu það og sögðu: Hingað og ekki lengra.

Englendingar voru ekki svo heppnir. Það er mjög erfitt að snúa til baka þegar einu sinni er búið að mola úr þjónustunni, koma henni á markað. Þá hefur hið opinbera ekki þá stjórn á fyrirtækjunum, á þjónustunni, eins og áður. Og þó svo að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og við erum með til meðferðar sé ekki gengið eins langt og ekki sé verið að taka upp breska kerfið eins og það er í dag þá erum við hugsanlega á þessari leið. Það er verið að ganga þessi skref.

Það sem við höfum gagnrýnt í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í þessu frumvarpi og frumvarpi um lög um heilbrigðisþjónustu er það mikla vald sem hver heilbrigðisráðherra hefur til að setja reglugerðir. Hann er bókstaflega með opinn tékka, hann ræður för. Hann ræður hversu mikið af heilbrigðisþjónustunni verður tekið út úr opinberri þjónustu í dag, boðið út, molað niður. Við höfum ekki hugmynd um hvert stefnir með Landspítalann eins og hann er í dag. Við höfum ekki hugmynd um hvernig hæstv. ráðherra og ríkisstjórn sjá næstu ár fyrir sér að öðru leyti en því sem kemur fram í ríkisstjórnarsáttmálanum, að auka eigi einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni og fara inn á þessa markaðsbraut.

Því fagna ég því að við skulum staldra við núna eftir 2. umr. um málið og gefa okkur þann tíma sem ég tel að okkur beri að gefa máli sem vegur jafn þungt og þetta mál, gefa því þann tíma að við getum unnið það betur. Til þess var jú sá hluti breytinganna á þingsköpunum hugsaður, til að slíta ekki þingi að vori heldur fresta því og gefa okkur þessa haustdaga til að vinna að málum sem eru erfið og þung, sem eru hápólitísk og stefnumarkandi. Til þess höfum við dagana í september. Við eigum að nota þá til að gefa þeim tíma sem vilja koma frekar að málinu og skoða það betur. Þeim sem hugsanlega — eins og ég segi með kennara í dag — átta sig á því þegar þeir fara að skoða málið betur að þetta er kannski ekki eins slétt og fellt og lítur út fyrir í fyrstu, kannski ekki svo tæknilegt og kannski ekki svo pínulítið mál. Kannski erum við á einhverri braut sem við höfum ekki áttað okkur á.

Við gefum okkur tíma, gefum okkur sumarið til þess að skoða málið og lítum til Bretlands. Köllum eftir greinargerð, drögum að reglugerðum frá ráðherra. Reynum að kostnaðarmeta allt það innbyggða eftirlit sem verður í þessu nýja kerfi. Það verður mikið. Það kom fram hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að við yrðum að gera okkur grein fyrir því að þetta yrði dýrt. Það verður dýrt að koma þessu á þannig að sú sérfræðiþekking sem þarf að vera í þessari stofnun verði með sóma. Við skulum ganga þennan veg með opnum augum en ekki að afgreiða málið hér í engri umræðu og litlum undirbúningi og ganga svo bara blint í sjóinn.

Hæstv. forseti. Ég var nú búin að punkta hjá mér heilmörg atriði en ég sé að tíminn hefur flogið frá mér. Ég vil fá að vitna í nefndarálit hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefðum getað verið á því nefndaráliti. Við hefðum getað staðið öll saman að þessu nefndaráliti sem slíku. En við fögnum því sem sagt að málinu verði gefinn meiri tími og ég vil enn og aftur benda öllum almenningi í landinu á að lesa vel minnisblað Rúnars Vilhjálmssonar.