Sjúkratryggingar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 11:35:56 (8453)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[11:35]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns: Þjónustan skal vera góð og hún skal vera eins fyrir alla. En það skiptir máli á hverra höndum hún er. Það er staðreynd og frá því verður ekki horfið. Ég tel því mikilvægt að við fáum að sjá á spilin og ég fagna því ef ekki á að breyta neinu í núverandi rekstrarformi heilbrigðisþjónustunnar. En ekki er hægt að trúa því að í ríkisstjórnarsáttmálanum segir beinum orðum, og stefnt er að því, að auka einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Sú opnun sem er í frumvarpinu í sjúkratryggingastofnuninni gefur hæstv. ráðherra alla möguleika á að fara þær leiðir sem hann vill. Hvort það er ásetningur núverandi þingmanna, núverandi ríkisstjórnar eða hvort þróunin verður slík sjáum við ekki fyrir. En ég vil benda á að sjúklingar, fólk sem er orðið veikt, er í mjög veikri stöðu hvað varðar val á þjónustu eða kostnaði. Þegar fólk er veikt fer það að ráðum þess læknis sem það verður að leita til eða hefur farið til. Sjúklingar eru ekki í þeirri stöðu að geta velt fyrir sér verði og samanburði í þeim efnum.

Ég vil benda á reynslu Háskóla Íslands hvað varðar þessa hugmyndafræði, þegar markaðshugsunin er komin inn. Hugsunargangurinn breyttist í Háskóla Íslands þegar farið var að meta fjármagn til háskólans út frá fjölda útskrifaðra nemenda. (Forseti hringir.) Það er bara hugsunarháttur út af fyrir sig, vinnubrögðin breyttust. (Forseti hringir.) Að koma þessari markaðsþjónustu inn breytir líka hugsunarhætti og vinnubrögðum innan stofnananna.