Breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 14:50:09 (8492)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[14:50]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er gerð tilraun, sumir mundu segja úrslitatilraun, til að koma vitinu fyrir meiri hlutann og fá hann til að hætta við að setja inn í raforkulög ákvæði sem heimilar í raun að einkaaðilar geti eignast allt að 49% hlut í Landsneti. Það hefur verið upplýst að endurskoðun raforkulaganna á að hefjast í sumar og það er illskiljanlegt hvað það er sem rekur menn til þess að gera breytingar á þessu eignarhaldi þvert á niðurstöðu 19 manna nefndarinnar sem sátt var um á sínum tíma. Ég vil eindregið hvetja þingheim til að styðja þessa tillögu um að brott falli 3. gr. þessa frumvarps um heimild til að selja hluta af Landsneti.