Almannavarnir

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 20:06:45 (8568)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

almannavarnir.

190. mál
[20:06]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hefur hér verið sagt, það er sérstakt að mæla fyrir um þessi mál nú í dag einmitt þegar mikill Suðurlandsskjálfti hefur riðið yfir en svona eru nú tilviljanirnar merkilegar.

Í ræðu minni við 1. umr. um þetta mál sagði ég að ég teldi æskilegt að hafa styrka miðlæga stjórn ef hætta vofir yfir eða stórslys hefur orðið. Ég sagði að ég hallaðist að því að styðja fyrirkomulagið í frumvarpinu. Síðan fengum við frumvarpið til nefndarinnar og fengum umsagnir og þá brá manni að vissu leyti því að ekki hafði verið haft neitt samráð við sveitarfélögin við undirbúning málsins. Það kom manni nokkuð á óvart og viðbrögðin voru eftir því. Bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu verulegar athugasemdir við frumvarpið og nefndin vann að því að breyta því til þess að koma til móts við þau sjónarmið sem fram komu hjá þessum aðilum og reyndar hjá fleiri umsagnaraðilum.

Samband íslenskra sveitarfélaga, þeir sem helst þekkja til þessara mála þar, skoðaði breytingartillögurnar sem gerðar voru og var mjög jákvætt gagnvart þeim, sagði að tekið hefði verið tillit til þeirra sjónarmiða og dregið hefði verið úr miðstýringu. Fyrir vikið væri hlutverk almannavarnanefndar og lögreglustjóra mun sýnilegra en í upphaflegu frumvarpi og framangreindar breytingar sem þeir skoðuðu mundu tryggja ágætlega að samvinna ríkis og sveitarfélaga á sviði almannavarna gæti gengið hnökralaust fyrir sig — tillögurnar væru sem sagt mjög til bóta.

Það var að mínu mati afar jákvætt að Samband íslenskra sveitarfélaga, sem skiptir auðvitað mjög miklu máli í þessu sambandi, skyldi láta í ljós jákvætt álit á breytingartillögunum. Því skal samt haldið til haga að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vildu ganga lengra þannig að þau eru ekki enn alveg sátt. Engu að síður hefur náðst miklu meiri samstaða um málið en var í upphafi. Margar af þessum jákvæðu breytingum endurspeglast líka mjög vel í nefndarálitinu og ætla ég ekki að fara frekar út í það.

En það er alveg ljóst að hlutverk almannavarnadeildar ríkislögreglustjóraembættisins verður mjög mikið og mikil ábyrgð verður lögð því embætti á herðar. Það, virðulegi forseti, er enn ein ástæðan fyrir því að styðja og styrkja það embætti. Við samþykkjum vonandi í kvöld breytingar á almannavörnum landsins. Ríkislögreglustjóraembættið fær meira hlutverk og mjög mikla ábyrgð þannig að hlúa þarf að almannavarnadeildinni sem er þar innan dyra til þess að við getum verið fullviss um að almannavarnir verði í góðum höndum í framtíðinni.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri. Ég tel að breytingarnar hafi verið mjög til bóta og styð málið.