Stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum

Miðvikudaginn 03. september 2008, kl. 14:34:32 (8776)


135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[14:34]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hefja þessar umræður þótt betra hefði kannski verið ef málflutningur hans hefði verið annar en samhengislaus reiðilestur og hræðsluáróður. (SJS: Þá skalt þú reyna að halda þræði.) Viðfangsefnið er brýnt og nú þegar váleg tíðindi berast af efnahagsmálum þjóðarinnar og yfirvofandi atvinnuleysi er vert að spyrja: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í stóriðju- og virkjunarmálum? Skilaboðin sem berast af stjórnarheimilinu eru nefnilega ekkert sérstaklega skýr. Menn tala út og suður. Samfylkingin reynir eins og hún getur að sannfæra þjóðina um að plaggið Fagra Ísland sé á lífi en ekki dautt á meðan þjóðin hefur áttað sig á að það er ekkert annað en visið laufblað.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr í þessum efnum. Við viljum taka upp stjórnarskrárákvæði sem tryggir þjóðareign á orkuauðlindum. Þetta er að mínu mati algjört grundvallaratriði í íslenskum þjóðmálum og sú stefna sem Framsóknarflokkurinn hefur fylgt í um 90 ár.

Við höfum líka lagt fram rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. Við viljum ganga hóflega um landið okkar, vernda umhverfið, en byggja upp atvinnu þar sem þess gerist þörf með nýtingu náttúruauðlinda okkar. Aðeins þannig verða til tekjur sem munu svo standa undir kostnaði við okkar dýrmæta velferðarkerfi.

Það er líka alveg á hreinu að við munum standa með heimamönnum á Norðurlandi við að nýta þær orkuauðlindir sem þar er að finna, við að byggja upp atvinnu á svæðinu. Í Norðurþingi einu og sér hefur íbúum á aldrinum 18–40 ára fækkað um 26% á síðustu tíu árum. Þá hefur íbúum í sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum fækkað um allt að 31%. Þetta eru háar tölur en sýna því miður svart á hvítu að ef fólk missir atvinnuna þá neyðist það oft til þess að flytja í burtu því það vantar fjölbreytni í atvinnulífið. Það er rangt að aðeins sé horft til stóriðju. Það vinna allir hörðum höndum við að sporna við þessari þróun. Sumt hefur gengið, annað ekki. Það hefur bara ekki dugað til.

Við framsóknarmenn munum berjast fyrir því að komið verði á fót einhverjum umhverfisvænstu stórframkvæmdum í heiminum á Norðurlandi. Það verða framlög okkar Íslendinga til umhverfisverndar á heimsvísu. Það verður alltaf mun hagkvæmara að nýta endurnýjanlega orku en að knýja atvinnustarfsemi með kolum og olíu eins og tíðkast víðsvegar í Evrópu og umheiminum.

Hér er spurt: Hver er stefna stjórnvalda í stóriðju- og orkumálum? Það komu fá svör frá hæstv. iðnaðarráðherra. Fyrst væri kannski best að fá úr því skorið hver stefna hæstv. umhverfisráðherra sé í þessu máli. Ráðherrann hefur nú á skömmum tíma fellt tvo úrskurði um sambærilegar framkvæmdir, annars vegar í Helguvík og hins vegar á Bakka við Húsavík. Úrskurðirnir stangast á. Um það verður ekki deilt. Það er þó verra að þegar Helguvíkurúrskurðurinn var kveðinn upp sagðist hæstv. umhverfisráðherra vera ósammála eigin úrskurði. Hæstv. umhverfisráðherra hafði með öðrum orðum tvær skoðanir á eigin gjörðum. En það er erfitt að vera í togstreitu við sjálfan sig þannig að þegar kom að því að kveða upp sams konar úrskurð varðandi framkvæmdir og orkuöflun á Húsavík var kveðinn upp sá úrskurður að framkvæmdir skyldu fara í sameiginlegt mat. Sú ákvörðun er fyrst og fremst persónuleg ákvörðun ráðherra en haldin þeim annmörkum að með henni voru þverbrotnar meginreglur stjórnsýsluréttarins um að gæta meðalhófs og jafnréttis.

En af hverju að úrskurða að framkvæmdirnar skyldu fara í sameiginlegt mat? Þetta er sanngjörn spurning. Í fyrsta lagi þá er algjörlega útilokað að hægt sé að fullyrða að það sé betra hvað umhverfissjónarmið varðar að fara í sameiginlegt mat. Í raun væri hægt að fullyrða að sjálfstætt ítarlegt mat væri miklu betur til þess fallið að gæta umhverfissjónarmiðanna. Þá vissu menn heldur ekki hvað sameiginlegt mat fæli í sér. Hvernig er hægt að fullyrða að eitthvað sé betra út frá umhverfissjónarmiðum þegar enginn veit hvað felst í því?

Á þessu áttuðu félagar mínir sig í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þeir fagna úrskurðinum vegna þess að hann tefur og seinkar framkvæmdunum um að minnsta kosti eitt ár ef ekki verður veitt leyfi til nauðsynlegra rannsóknarborana sem fara áttu fram á næsta sumri. Ástæðan er jú að hinu sameiginlega mati verður ekki lokið fyrr en í fyrsta lagi í október 2009.

En þarna liggur annar stóri misskilningurinn í málinu. Þeir sem standa að orkuöflun ætla sér að virkja hvort sem orkan verður seld til stóriðju eða ekki. Það er rík samstaða um málið. Viljayfirlýsing aðilanna gerir það vissulega að verkum að það er strax arðbært að ráðast í verkið. En það er ekkert í hendi um að álver rísi á Bakka. Allir samningar eru eftir. Heimamenn ætla sér að selja orkuna til þeirra sem vilja byggja upp atvinnu í heimabyggð sama hvaða nafni hún nefnist. Þá erum við kannski komin að kjarna málsins. Með hinum arfavonda úrskurði var fyrst og fremst verið að eyðileggja vonir heimamanna á Norðurlandi um atvinnuuppbyggingu á svæðinu. Það hefur í raun bara með þetta eitt að gera.

Eru vinstri grænir búnir að yfirgefa rauða litinn sem ég hélt að táknaði samvinnu og atvinnu fyrir alla? Hefur hin gegndarlausa umhverfisöfgahyggja blindað mönnum þannig sýn að þeir standa upp og klappa þegar atvinnuuppbygging er stöðvuð úti á landi? Úrskurður hæstv. umhverfisráðherra hefur nefnilega valdið því að verktakar á svæðinu eru þegar farnir að missa verkefni tengd framkvæmdunum. Jarðvinnufyrirtæki og vélsmiðjur hafa minnkað umsvif sín sem og öll verslun á svæðinu.

Í þessari dæmalausu umræðu fleygði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon því fram þegar hann talað um svokölluð ruðningsáhrif að önnur atvinna fái ekki rúmast með stóriðju. Það er ekkert fjarri sanni. Í raun er nýting náttúruauðlinda forsenda þess að ný atvinnutækifæri bjóðast. Ef fólki fjölgar þá fjölgar þjónustufyrirtækjum einnig og þannig verður hægt að byggja upp heildstætt þjónustu- og atvinnusvæði fyrir heil byggðarlög.

Við framsóknarmenn höfum þá stefnu að heilbrigðis- og menntakerfi eigi að standa öllum opið óháð efnahag og búsetu. Við teljum að stór hluti samneyslunnar eigi að fara í þessa þætti. Hvernig á að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir þessum kerfum ef hvergi má nýta auðlindir til að standa straum af velferðarmálum okkar Íslendinga? Halda menn að tekjur ríkissjóðs verði til af sjálfu sér? Lifa menn kannski í draumaheimi, í einhvers konar draumalandi þar sem peningarnir vaxa á trjánum?

Íslendingar standa nú frammi fyrir einum mesta efnahagsvanda í sögu þjóðarinnar. Um það eru menn sammála. (Gripið fram í.) Sá vandi bitnar mest á ungu fólki, barnafólki sem þarf að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það mætir nú þungum byrðum, háu húsnæðis-, matvæla- og eldsneytisverði og sífellt hærri vöxtum á verðtryggðum lánum. Í nýrri skýrslu OECD kemur fram að hagvöxtur mælist minnst á Íslandi eða 0,4% meðal aðildarþjóða og því er spáð að hagvöxtur á næsta ári verði neikvæður um sama prósentustig. Hvernig ætla stjórnvöld að snúa að snúa þessari þróun við?

Hæstv. forsætisráðherra fullyrti hér í gær í umræðum um efnahagsmál að verið væri að vinna að lausn mála, að uppbygging atvinnu og nýting orkuauðlinda væri stór þáttur í því að snúa þessari óheillaþróun við. Hverjir haldið þið að trúi þessu þegar hæstv. umhverfisráðherra er nýbúin að setja fótinn fyrir atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi? Ríkisstjórnin ber að sjálfsögðu öll ábyrgð á málinu. Hvernig ætlar hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því að framkvæmdum verði hraðað við álver á Bakka eins og hann hefur þegar fullyrt að verði? Ég hefði óskað eftir því að skýr svör hefðu borist hér í dag við því og að hæstv. forsætisráðherra hefði verið hér fyrir svörum því engin komu svörin frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Í gærkvöldi kom reyndar fram, í viðtali í sjónvarpsþættinum Ísland í dag, að hæstv. forsætisráðherra hefði í raun enga hugmynd um hvernig úrskurðurinn mundi ekki tefja framkvæmdirnar. Hann sagðist ekki vita það, vísaði bara á umhverfisráðherra, sagði að hún hefði fullyrt það og best væri að hún svari. Það er krafa okkar framsóknarmanna að þessari spurningu verði svarað sem allra fyrst til að steypa ekki framkvæmdum við atvinnuuppbyggingu á Norðurlandi í voða og ég hefði óskað þess að iðnaðarráðherra hefði komið með skýr svör í þessa veru. (Gripið fram í.)

Fjölskyldur, einstaklingar og fyrirtæki standa nú frammi fyrir vaxandi atvinnuleysi og vanskil og gjaldþrot blasa því miður við. Heil byggðarlög standa frammi fyrir mikilli fólksfækkun. Við framsóknarmenn munum áfram berjast fyrir því að skotið verði sterkum stoðum undir samfélagið okkar og að áfram verði haldið með atvinnuuppbyggingu. Hagvextinum verður að snúa við (Forseti hringir.) og það verður aðeins gert með skynsamlegri nýtingu á þeim auðlindum sem við Íslendingar eigum. Um þessa (Forseti hringir.) mikilsverðu hagsmuni munum við framsóknarmenn standa vörð og aldrei gefa eftir.