Stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum

Miðvikudaginn 03. september 2008, kl. 15:46:29 (8789)


135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Sóknarfæri okkar liggja í frekari nýtingu, gnótt grænnar orku sem þjóðin er svo lánsöm að eiga. Það eru ríkari hagsmunir en nokkru sinni fyrr í heimi sem fær um 80% orku sinnar úr jarðefnaeldsneyti og býr við ógn gróðurhúsalofttegunda. Sú skoðun á umhverfismálum sem er bundin svona þröngt við landið á sér ekki valkosti að mínu mati, við þurfum að hugsa þetta miklu meira á hnattræna vísu.

Við höfum mikið að bjóða þegar kemur að orku, vinnslu og þekkingu hennar á hinum náttúruvænu orkuauðlindum okkar. Það er sjálfsagt að leita til allra átta þegar leitað er tækifæra til atvinnuuppbyggingar í landinu, það er sjálfsagt að leita að fjölbreytni eins og hægt er þegar við leitum valkosta hjá fyrirtækjum sem vilja koma með starfsemi sína til Íslands. Álver eru þar reyndar ekkert undanskilin eða hvaða þjóð getur boðið heimsbyggðinni betri og umhverfisvænni vinnslu á áli en við Íslendingar?

Það er margt gott sem fylgir nýtingu náttúruauðlinda. Ferðaþjónusta hefur t.d. notið mjög góðs af nýtingu og virkjunum sem við stöndum fyrir. Hver ætlar að halda því fram að þjóð, fámenn þjóð í stóru landi sem búin er að gera yfir 20% af stóru landi sínu að þjóðgörðum á meðan um 2% fara undir virkjanasvæði, hver ætlar að halda því fram að við séum ekki náttúruverndarfólk?

Þau skilaboð sem hér hafa verið send frá stjórnvöldum og úr pólitíkinni af stjórnmálamönnum á undanförnum missirum eru mjög hættuleg. Við erum að upplifa tapaða orrustu í Þorlákshöfn og það er einni orrustu of mikið. Við vorum að tapa þar fyrirtæki sem framleiðir náttúruvæna afurð en þarf orku til framleiðslunnar, mikla orku og hefði skilað hér fjölda hátæknistarfa og mikilli framlegð og útflutningstekjum fyrir þjóðarbúið.

Ég fagna orðum iðnaðarráðherra áðan, hann sendi skýr skilaboð um að hér stæði til að virkja og hér stæði til að stunda áfram stóriðju og það er það sem skiptir öllu máli. Ég er kannski ekki alveg sammála því að þessi rammaáætlun sé algjört lykilorð í framtíðinni í þessum efnum, ég held að við verðum alltaf að skoða hvern valkost fyrir sig. Ég vil líka fagna því að það stendur til að virkja fyrir vestan, það stendur til að virkja Hvalá og tryggja þar með þeim fjórðungi og því byggðarlagi næga orku til atvinnustarfsemi fyrir íbúa þess í náinni framtíð.

Við getum ekki boðið fólki í Þingeyjarsýslu upp á það að vera tilraunadýr fyrir sameiginlegt umhverfismat sem umhverfisráðherra er að setja þar á. Það er engin skynsamleg lausn á því máli að mínu mati önnur en sú að umhverfisráðherra verði að draga ákvörðun sína til baka og ákvörðun Skipulagsstofnunar verði að standa. Við getum ekki boðið upp á svo misvísandi skilaboð og svo mikla óvissu sem þetta skapar í tímalengd, það er talað um 12–15 mánuði eða allt frá nokkrum vikum eða jafnvel nokkrum dögum upp í 12–15 mánuði. Það eru miklir fjármunir í húfi, það er búið að fjárfesta þarna fyrir 6 milljarða, þar af bera fátæk eða lítt burðug sveitarfélög hluta af miklum vaxtakostnaði af þeirri fjárfestingu. Það er ábyrgðarhluti þegar við tölum niður álver og segjum að öll orka sé frátekin. Það eru næg orkutækifæri í landinu, það er ekki öll orka frátekin fyrir álframleiðslu, við erum að leita miklu víðar.

Við hlustum hér á fögur orð vinstri grænna um næga möguleika, þekkingu, mannauð og auðlindir sem við eigum að nýta sjálfbært. Þetta eru bara orðin tóm vegna þess að þegar kemur að aðgerðum virðist ekkert eiga að gera. Skynsamt fólk er tilbúið til að breyta afstöðu sinni og breyta ákvörðunum sínum og taka málefnalega á umræðunni. Það var þannig þegar álverið í Straumsvík var samþykkt með eins atkvæðis meiri hluta þá voru það vinstri menn sem voru hér á móti. Þá flúði fólk land. Við viljum ekki þetta atvinnuleysi, við viljum ekki slíka stöðu aftur í samfélaginu. Fólk flúði hér um allan heim. Það er eitthvað sem er á ábyrgð okkar stjórnmálamanna að endurtaki sig ekki. Við eigum dugmikla þjóð og það verður ekki hér kreppa fyrr en vinnufúsar hendur fá ekki vinnu.

Okkar ábyrgð er sú að þau skilaboð sem við sendum umheiminum, sendum þeim fyrirtækjum (Forseti hringir.) sem hafa áhuga á að koma með starfsemi sína hér til Íslands, séu einróma og þau séu skýr og menn geti treyst því að (Forseti hringir.) það ríki sátt við samningaborðið.