Viðlagatrygging Íslands

Fimmtudaginn 04. september 2008, kl. 11:41:03 (8817)


135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:41]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég skulda ekki þær skýringar vegna þess að ég gaf þær á síðastliðnu þingi. Ég fór yfir þetta mál sem hv. þingmaður nefndi og gaf skýringar á því. Ég gagnrýndi setningu þessara bráðabirgðalaga árið 2003. Ég gagnrýndi minn eigin landbúnaðarráðherra fyrir að beita bráðabirgðalagavaldinu og setti fram þá skoðun bæði í blaðagrein í Morgunblaðinu og í þingræðum að hann hefði farið út fyrir valdsvið sitt í þeim efnum.

Lögin fóru fyrir landbúnaðarnefnd. Landbúnaðarnefnd samþykkti ekki þessi bráðabirgðalög. Það er kjarninn í málinu. Landbúnaðarnefnd breytti lögunum í átta greinum, ef ég man rétt. Hún tók lögin og gerði á þeim veigamiklar breytingar í óþökk við ráðherrann og skilaði þeim þannig til þingsins og það var það sem ég studdi.

Menn geta svo velt því fyrir sér hvað ríkisstjórnin á að gera við ráðherra sem fer svona með bráðabirgðalagavaldið að hann hefur greinilega ekki meiri hluta þingsins á bak við sig í því. Það var það sem gerðist í þessu máli, að ráðherra hafði ekki meiri hluta þingsins á bak við bráðabirgðalagasetninguna sjálfa.

Þess vegna spurði ég eftir því á síðasta þingi: Hvernig var kannað hvort meiri hluti þingsins var á bak við bráðabirgðalögin í fyrra? Ég tel að viðkomandi ráðherra sem beitir slíkri heimild sé skylt að gera það vegna þess að að forminu til er það forseti Íslands sem setur bráðabirgðalögin. Hann þarf auðvitað að hafa vissu fyrir því að hann sé að setja lög sem meiri hluti þingsins er á bak við.

Ég spyr hv. þingmann, varaformann Samfylkingarinnar: Var gengið úr skugga um það áður en bráðabirgðalögin voru sett að meiri hluti væri á bak við þau? Var haldinn fundur í þingflokki Samfylkingarinnar til að samþykkja bráðabirgðalögin (Forseti hringir.) áður en þau voru sett?