Viðlagatrygging Íslands

Fimmtudaginn 04. september 2008, kl. 14:10:05 (8846)


135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[14:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reynslan af tjónunum árið 2000 var sú að það hefur ekki verið lögð til breyting á þessu ákvæði af hálfu viðskiptaráðherra. Það er niðurstaðan. Ef talið hefði verið ósanngjarnt hversu há sjálfsábyrgðin var hefðu verið lagðar til breytingar á því. Auðvitað geta menn haft þau sjónarmið og komið með frumvarp um breytingar á því og við skoðum það efnislega. Það sem ég gagnrýni er að menn breyta þessum þætti málsins skyndilega eftir á, menn breyta tryggingaskilmálum eftir á. Viðlagatryggingasjóður er bara sjóður, hann hefur iðgjöld og hann hefur útgjöld. Ef menn breyta útgjöldunum verða menn líka að breyta iðgjöldunum, það er ekki hægt að gera bara annað en ekki hitt. Og þá breyta menn líka þannig að breytingin komi jafnt við alla sem í hlut eiga en senda ekki misvísandi skilaboð á tjónþola eftir því hvort þeir urðu fyrir tjóni árið 2000 eða 2008. Menn verða að hafa eitthvert samræmi í hlutunum.

Mér finnst það ekki rök í málinu að segja að það sé ástæða til að lækka það sem hver ber vegna þess að þeir séu svo margir sem hafi orðið fyrir smáu tjóni, það eru ekki rökin. Það finnst mér ekki hægt að festa hönd á sem rökstuðning fyrir breytingum. Árið 2000 voru yfir tvö þúsund tjónastaðir og greiddir yfir 2,6 milljarðar í tjónabætur. Það vantar enn þá rökstuðninginn fyrir því að breyta þessu og jafnvel þótt almennu tryggingafélögin hafi breytt skilmálum sínum þá bendi ég á það sem kom fram í máli hv. þm. Kjartans Ólafssonar að menn verða líka að gæta að því að taka ekki fyrir allan hvata einstaklinga til að tryggja sig sjálfir og reiða sig bara á opinbera forsjá.