Umhverfismál

Fimmtudaginn 11. september 2008, kl. 13:56:33 (9148)


135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[13:56]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka eins og aðrir þessa ágætu skýrslu. Aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið yfir efni hennar skipulega og það kemur í minn hlut að fjalla hér einkum um tvö atriði.

Ég vil byrja á því að minna á að það er ekki nema eitt og hálft ár síðan fagra Ísland, sem hér var til umræðu rétt á undan, fleytti Samfylkingunni inn í ríkisstjórn af því að þrátt fyrir stuðninginn við Kárahnjúka og stóriðjustefnuna tóku margir náttúruverndarsinnar flokkinn í sátt og trúðu því einlæglega að snúið yrði við blaði. Ég vil vitna til greinar eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur í tímariti samfylkingarmanna, Herðubreið, þar sem hún segir í grein sinni, sem hún kallar reyndar Magra Ísland en ekki Fagra Ísland, að vonir hafi staðið til að nú viki stóriðjuflokkur Framsóknar og fortíðar og við tæki flokkur með metnaðarfulla umhverfis- og náttúruverndarsýn. Það var ekki aðeins fagra Ísland sem stuðningurinn við Samfylkinguna snerist um heldur einnig að menn töldu að innan raða Samfylkingarinnar væru trúverðugir andstæðingar stóriðju- og eyðileggingarstefnunnar sem mundu standa í lappirnar þegar á þyrfti að halda.

Fremstur í þeim flokki var hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun hér á sínum tíma. Í ljósi þessarar upprifjunar mætti ætla að í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir mætti rekja sigurgöngu þessarar stefnmörkunar um fagra Ísland um viðsnúning frá stóriðjustefnu fyrri stjórnvalda. En því er þó ekki fyrir að fara einfaldlega vegna þess að græni liturinn Samfylkingarinnar reyndist ekki þvottekta.

Ég vil taka undir það sem segir í þessari skýrslu um Vatnajökulsþjóðgarð að hér er á ferð stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. En stofnun þjóðgarðsins sem slík var aðeins fyrsta skrefið og það var mun minna skref en vonir stóðu til í undirbúningsferlinu. Hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon sætti ámæli hér í vikunni fyrir að minna á að á meðan Jökulsá á Fjöllum, Kreppa og Kverká væru ekki innan þjóðgarðsins væri Vatnajökulsþjóðgarður ekki barn í brók, eins og hv. þingmaður kallaði það.

En þingmaðurinn benti líka á að nú fara fram rannsóknir kostaðar af Landsvirkjun. Á hverju? Á hóflegri nýtingu vatns úr Jökulsá á Fjöllum og spurning væri hvort menn væru virkilega að undirbúa að virkja, taka Kverká og Kreppu og setja í uppistöðulón í Fagradal eða Arnardal. Iðnaðarráðherra sór þetta allt saman af sér hér í þingsalnum. En í ljósi þeirrar umræðu sem varð ansi snörp hér í vikunni er athyglisvert að lesa skýrslu ráðherrans því að þar segir á blaðsíðu 10, með leyfi forseta, um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs:

„Verið er að ræða við eignar- og nýtingarrétthafa lands um svæði eins og fjalllendi við Hoffellsjökul, Langasjó og landsvæði milli Langasjávar og Laka, hluta Ódáðahrauns, Trölladyngju, Öskju og Lónsöræfa, svo að nokkuð sé nefnt.“

Svo að allt sé nefnt nema hvað? Jökulsá á Fjöllum? Jökulsá á Fjöllum er ekki nefnd. Hverju sætir þetta? Hverju sætir þetta verklag? Hæstv. umhverfisráðherra skuldar þingi og þjóð skýringu á því sem hér stendur sem annaðhvort hlýtur að vera stefnubreyting eða þá að stjórn þjóðgarðsins vinnur ekki samkvæmt því sem ákveðið hafði verið. En þá þarf líka að svara því af hverju ráðherra lætur það óátalið.

Frú forseti. Íslendingar njóta þess heiðurs að vera gæslumenn tveggja staða á heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir voru teknir á skrána 2004 og Surtsey 7. júlí síðastliðinn. Það hefur áður verið minnst á hvernig Vegagerðin ógnar nú lífríki Þingvallavatns að mati færustu vatnalíffræðinga heims og að þar fara framkvæmdir fram þrátt fyrir að málshöfðun sé yfirvofandi.

Þegar Surtsey var tekin á heimsminjaskrá sagði hæstv. ráðherra í grein í Morgunblaðinu að þetta væri mikill heiður en því fylgdi aukin ábyrgð og skuldbinding um áframhaldandi verndun Surtseyjar. En hvernig hefur ráðherrann svo farið með þessa miklu ábyrgð? Öllum að óvörum var í lok ágúst lagður sæstrengur á 2,5 km kafla í gegnum friðlandið við Surtsey. Umhverfisstofnun veitti leyfið fyrir framkvæmdinni þvert gegn umsögnum allra lögboðinna aðila. Ég átel þau vinnubrögð og ég tel að umhverfisráðherra skuldi þingi og þjóð einnig skýringu á þessu verklagi.