Umhverfismál

Fimmtudaginn 11. september 2008, kl. 14:36:57 (9157)


135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:36]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa komið upp og talað þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um þessi mál. Ég tel að fleiri ráðherrar ættu að gera slíkt hið sama. Það gæti verið gagnlegt að samgönguráðherra flytti t.d. skýrslu sína um samgöngumál hér á þinginu svo að við gætum haft efnislega og kröftuga umræðu um sýn okkar og stefnu í þeim málum. Ég held að blað sé brotið með því sem umhverfisráðherra gerir hér.

Ég get ekki látið hjá líða hér í umræðunni, vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, án þess að ég ætli að elta ólar við málflutning vinstri grænna, að geta þess að mér fannst ræða hans einkennast af því að hann sé fastur í skoðanakönnunum sem gerðar voru í maí 2007. (Gripið fram í.) Hann virðist sjá mest eftir einhverju fylgi sem fór, að hans mati, frá Vinstri grænum til Samfylkingarinnar á þeim tíma. Það segir kannski eitthvað meira um stefnu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar en nokkuð annað.

En ég held að það sé líka býsna merkilegt, talandi um það sem margir hv. þingmenn hafa komið inn á hér varðandi umhverfismálin, að vindar eru að breytast í samfélaginu. Umræðan er að breytast. Skilningur manna á umhverfismálum er að aukast. Skilningur manna á gildi náttúrunnar er að aukast.

Mér þóttu býsna merkileg tíðindi birtast í skoðanakönnun Capacent Gallup á afstöðu manna til úrskurðar umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum á Bakka. Um 42% þjóðarinnar eru sammála því að setja þetta í heildstætt umhverfismat. Ég er ekki viss um að sama niðurstaða hefði fengist hefði þessi skoðanakönnun verið gerð fyrir örfáum árum. Allt er þetta til marks um breyttar áherslur og breytt viðhorf landsmanna til náttúruverndar, til umhverfismála, til álvera og til stóriðju.

En mig langaði á þeim tæplega tveimur mínútum sem ég á hér eftir af ræðu minni að gera að umtalsefni almenningssamgöngur og samgöngumál. Þau voru rædd aðeins áðan af hálfu hv. þm. Ólafar Nordal. Mig langar að ræða sérstaklega strætó og almenningssamgöngur. Ég tel að það sé umhverfismál að við aukum þátt almenningssamgangna í samgöngum almennt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega talað um að efla eigi almenningssamgöngur. Það er mín bjargfasta trú og skoðun að ríkið eigi með einhverjum afgerandi eða beinum hætti að koma að rekstri strætó eða rekstri almenningssamgangna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í gegnum tíðina hafa sveitarstjórnarmenn á þessu svæði leitað til ríkisins og óskað eftir því að ýmis gjöld, tollar og skattar væru felldir niður. Á því hefur fjármálaráðuneytið alltaf séð vankanta og vísað til fordæmis. Ég segi: Gott og vel, skoðum það þá með beinum hætti að ríkið leggi hreinlega eina upphæð árlega, ríkisstyrk, til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það er síðan sveitarfélaganna að ákveða hvernig sá styrkur er notaður, hvort hann er notaður til þess að niðurgreiða fargjöld eða auka tíðni o.s.frv.

Ég tel einnig, og hef flutt um það tillögu hér á þingi, að við eigum að efla forgangsakreinar strætisvagna í umferðinni og ég tel líka að við eigum að skoða það að afnema skattskyldu strætókorta. Það hljómar mjög einkennilega en er nú því miður þannig að þeir starfsmenn ríkisins sem kjósa t.d. að nota bíla í sinni vinnu — að þau hlunnindi eru skattfrjáls. En notir þú strætó og fáir strætókort, veskú þá þarftu að borga skatt af þeim. Almenningssamgöngur eru umhverfismál í eðli sínu og við þurfum að (Forseti hringir.) skoða þau mál og taka á þeim eins og öðrum þáttum umhverfismála sem umhverfisráðherra hefur mælt fyrir í þessari ágætu skýrslu.