Byggðakvóti

Þriðjudaginn 09. október 2007, kl. 13:54:04 (216)


135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

3. fsp.

[13:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mér heyrist að þetta málefni sé dálítið viðkvæmt fyrir ráðherrann miðað við hvernig hann hagar sér í ræðupúlti Alþingis. Hér er einfaldlega um staðreyndir að ræða, engar dylgjur. Málið vegna fiskveiðiársins 2006/2007 er enn í farvegi í ráðuneytinu og það veit hæstv. ráðherra vel. Hæstv. ráðherra þarf því ekki að tala um dylgjur hér.

Ég held, hæstv. forseti, að það sé kominn tími til að jarðtengja þessa ríkisstjórn. Jarðtengja hana segi ég, því að hæstv. ráðherra kemur hér upp og talar um hvað það sé mikil ánægja og mikil samstaða um byggðakvótann. Hefur hæstv. ráðherra ekkert heyrt í sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið? Er mikil ánægja hjá sveitarstjórnarmönnum með það hvernig staðið er að málum hér? Sýnir reynslan það? Nei, því miður. Ég held að það þurfi að jarðtengja þessa ríkisstjórn því að eins og ríkisstjórnin hélt að fólkið í byggðunum væri ánægt með þær mótvægisaðgerðir sem hún stendur að þessa dagana, þá er raunin ekki sú heldur, enda ekki nema von því að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert rætt við sveitarstjórnarmenn (Forseti hringir.) um þau vandamál sem steðja að byggðunum.