Notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli

Þriðjudaginn 09. október 2007, kl. 17:21:31 (274)


135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[17:21]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga, um staðfestingu Alþingis á bráðabirgðalögum um rafmagnsöryggismál í íbúðar- og skólahúsnæði fyrrum varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli.

Eins og þingheimi er kunnugt var ákveðið að íbúðar- og skólahúsnæðið á fyrrum varnarsvæðinu yrði tekið í notkun á þessu hausti en það hafði þá staðið autt frá því herinn yfirgaf Ísland. Rafföng og raflagnir á svæðinu uppfylltu ekki þær kröfur sem gerðar eru í íslenskum lögum og reglugerðum og ljóst var að skipta þurfti um raflagnir innan svæðisins. Það er afskaplega viðamikið verkefni að skipta um raflagnir og koma íslenska kerfinu á í öllum þeim miklu mannvirkjum sem þarna eru og talið að það kosti ekki minna en 1 milljarð kr. Það má minna á að þetta er stórt og mikið þorp sem áður hýsti á sjötta þúsund manns. Í því eru gífurleg verðmæti fólgin fyrir samfélagið suður með sjó að fá þetta tækifæri eftir efnahagsleg áföll, eftir að herinn fór og kvótaniðurskurður kom til en veiðiheimildir á þorski hafa verið mjög miklar í Grindavík og víðar. Þegar það kom upp snemmsumars, að taka átti þetta húsnæði í notkun, varð að sjálfsögðu að taka það mál fyrir á þennan hátt. Það hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar sem fékk þetta til umfangs og hafði ekki yfir slíkum fjármunum að ráða að svo stöddu að unnt væri að ljúka endurbótum til að uppfylla íslensk lög og kröfur um öryggi þannig að skólastarf gæti hafist haustið 2007, eins og búið var að leggja upp með og auglýsa og undirbúa með ýmsum hætti og innrita þarna á annað hundrað nemendur o.s.frv.

Ákveðið var að afhenda fyrstu íbúðirnar til leigu um miðjan ágúst og var algjörlega ómögulegt að koma raflögnum í rétt ástand fyrir þann tíma vegna þess hve knappur hann var, auk þess sem erfitt var að fá iðnaðarmenn til starfsins nákvæmlega á þeim tímapunkti. Af þeim ástæðum þótti nauðsyn bera til að sett yrðu bráðabirgðalög svo að skólastarf gæti hafist um haustið.

Það má segja að það sé ámælisvert af hálfu þeirra sem fara með málið að hafa ekki komið að máli við stjórnvöld fyrr, hafa t.d. ekki komið með málið á borð mitt sem viðskiptaráðherra snemmsumars þannig að hægt hefði verið að taka málið til eðlilegrar afgreiðslu á sumarþingi og afgreiða um það hefðbundin lög. Sumarþingi var lokið þegar þetta mál kom upp og þá var annaðhvort að bregðast við því með þessum hætti — auðvitað hefði verið hægt að kalla þingið saman, enda situr þingið allt árið eins og þekkt er, en tilefnið var kannski ekki nógu brýnt til að gera það. Þó er það brýnt samfélagslegt mál að koma þessum miklu mannvirkjum í notkun sem allra fyrst, samfélaginu þarna suður frá til mikils ábata sem og íslensku samfélagi öllu.

Minna má á að það var ekki bara það að þarna væri verið að mæta efnahagslegum áföllum eftir að herinn fór og út af verulegum kvótaniðurskurði sem bitnaði mjög harkalega t.d. á Grindavík og Sandgerði og öðrum svæðum þarna. Það var einnig verið að mæta uppsafnaðri þörf til margra ára fyrir leiguhúsnæði og þá ekki síst fyrir ungt fólk, enda mjög alvarlegt ástand á þeim markaði. Þarna gafst færi á að koma íbúðum á markað, ódýru, hagstæðu leiguhúsnæði fyrir ungt fólk. Hvort sem það er að nema við Keili eða er í iðnnámi eða háskólanámi á Reykjavíkursvæðinu þá er það umsóknarhæft fyrir þetta húsnæði og gafst kostur á að leigja sér ódýrt húsnæði í mjög fínu samfélagi þar sem allt er til alls, leikskólar, skólar, búðir, ferðir til og frá Reykjavík o.s.frv.

Þannig að allt mælti með því að þessum verðmætum yrði komið í gagnið ekki seinna en strax. Þessi leið var farin. Það er alltaf umdeilanlegt að setja bráðabirgðalög en það er gert. Ég er sannfærður um að það var réttlætanlegt og nauðsynlegt að gera það. Ekki þótti nógu mikið tilefni til að kalla þingið saman og þess vegna setti ég bráðabirgðalög til þess að koma þessu í gagnið, sem aftur kæmu til afgreiðslu á fyrstu dögum Alþingis. Það var því ekki eins og verið væri að ganga fram hjá þinginu, alls ekki.

Ég ætla að rekja málið í nokkrum orðum, hver staðan er, af því að þetta er einnig öryggismál sem snertir marga þætti. Helstu efnisatriði bráðabirgðalaganna eru þau að heimilað er að nota raflagnir og rafföng í núverandi ástandi á íbúðar- og skólasvæði fyrrum varnarsvæðis til 1. október 2010. Þetta er sem sagt afmarkað og skilyrt og þetta er sá tími sem Þróunarfélagið fær til að skipta út öllum raflögnum og rafföngum þarna þannig að það sé algjörlega orðið að íslensku kerfi á þeim tíma. En líklega gerist það miklu fyrr, eins og ég kem að í máli mínu á eftir, því svo vel gengur að skipta út gamla kerfinu fyrir hið íslenska. En þá verður endurbótum lokið á rafmagnsöryggismálum á svæðinu til samræmis við gildandi lög um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Í öðru lagi er kveðið á um að Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. afhendi Neytendastofu áætlun um hvernig unnið verði að lagfæringum sem hér um ræðir fyrir 1. október 2007, sem nú er liðinn. Og það hafa þeir að sjálfsögðu gert, enda hafa þeir hjá Þróunarfélaginu unnið mjög vel með Neytendastofu og stjórnvöldum að því að standa eins vel og hægt er að þessum málum. Enda mjög mikilvæg mál á ferðinni.

Í þriðja lagi er kveðið á um að Þróunarfélagið tilnefni sérhæfðan fulltrúa í rafmagnsöryggismálum sem verði tengiliður Neytendastofu vegna verkefnisins. Hann skal uppfylla þær hæfniskröfur sem gerðar eru til þeirra sem fara með öryggisstjórnun á sviði rafmagnsmála, sbr. ákvæði í reglugerð 246/1971, um raforkuvirkjun, með síðari breytingum.

Í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld tóku við fyrrum varnarsvæði á Keflavíkurflugvelli á síðastliðnu ári fóru fram fundir milli Þróunarfélags Keflavíkur og Neytendastofu um rafmagnsöryggismál á svæðinu. Samkomulag varð um að Neytendastofa mundi gera úttekt á ástandi raflagna í húsum á fyrrgreindu svæði og var sú úttekt send félaginu í febrúar árið 2007. Úttektin sýndi að umfangsmiklar breytingar væru nauðsynlegar á svæðinu til þess að unnt væri að uppfylla íslenskar og samevrópskar reglur á þessu sviði enda rafkerfið á svæðinu miðað við aðra staðla. Hér var um að ræða breytingar á rafmagnskerfi svæðisins í heild og öðrum rafbúnaði sem fylgir húsnæðinu, svo sem raflögnum, rofum, rafmagnstenglum, aðalrafmagnstöflum, útsláttaröryggjum í rafmagnstöflum og jarðtaugum og loks þarf einnig að breyta spennukerfi á umræddu svæði til samræmis við íslenskar reglur. Samtímis var að sjálfsögðu unnið að því af hálfu Þróunarfélagsins að taka í notkun eins fljótt og hægt væri íbúðir á þessu svæði og nýta meðal annars í þágu nýnema á háskólastigi og fleiri eins og ég nefndi áðan.

Miðað við umfang framkvæmda og með tilliti til tíma og kostnaðar var ljóst að nauðsynlegt væri að áfangaskipta þessu verkefni því það einfaldlega tækist ekki að ljúka þessu umfangsmikla verki á þeim tíma sem þá var eftir fram að afhendingu fyrstu íbúða um miðjan ágúst. Miðað við ástand á atvinnumarkaði þótti einnig einsýnt að ekki væri hægt að ná því markmiði að gera allar æskilegar breytingar innan þeirra tímamarka. Því var ákveðið, af því að þessi staða var uppi eins og ég nefndi áðan, að það var útilokað tæknilega og verklega að ná því að breyta öllum þessum raflögnum fyrir ágústmánuð núna þá varð annaðhvort að stoppa allt, að hætta við auglýst skólastarf og hætta við að koma íbúðunum í gagnið og bjóða nýstúdentum hvar sem þeir eru í námi á þessu stóra svæði öllu, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjunum, aðgang að þessum íbúðum eða grípa til þess að setja bráðabirgðalög. Af framangreindum ástæðum voru þau því sett 6. júlí í því skyni að treysta grundvöllinn fyrir hagnýtingu íbúðanna án þess þó — sem er algert grundvallaratriði — án þess þó að öryggi væntanlegra íbúa yrði stefnt í hættu. Við fórum mjög ítarlega yfir það áður en lögin voru sett og þau tekin fyrir í ríkisstjórn að það væri alveg á hreinu að ýtrasta öryggis væri gætt í þessu máli og þegar sú áætlun lá fyrir í samráði við Neytendastofu þá var þetta gert.

Það er rétt að gefa hér yfirlit yfir stöðuna í öryggismálunum af því að þau skipta þarna mjög miklu máli og þróunina á þessu fyrrum varnarsvæði eftir að lögin voru sett 6. júlí. Það er byggt á upplýsingum Neytendastofu frá því 20. september síðastliðinn um stöðu mála og svo upplýsingum frá Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf.

Í samræmi við ákvæði 2. gr. bráðabirgðalaganna hefur Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar tilnefnt umsjónarmann öryggismála á svæðinu. Umsjónarmaður ber ábyrgð á og hefur umsjón með öllum neysluveitum svæðisins og er hann jafnframt tengiliður Neytendastofu sem fer með yfireftirlit með framkvæmd rafmagnsöryggismála hér á landi. Hins vegar er það svo að Hitaveita Suðurnesja ber ábyrgð á raforkudreifikerfi svæðisins og er hún jafnframt undir yfireftirliti Neytendastofu um framkvæmd rafmagnsöryggiseftirlitsmála. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu störfuðu alls níu löggiltir rafverktakar að því að lagfæra rafkerfi um 340 íbúða sem verið er að taka í notkun á svæðinu. Þar er um að ræða 220 fjölskylduíbúðir og 80 stúdíóíbúðir og um 40 einstaklingsherbergi. Auk þess hafa starfað að málinu með einum eða öðrum hætti, auk umsjónarmanns öryggismála, fjöldi rafvirkja og ráðgjafa með þekkingu og reynslu af svæðinu og rafkerfi þess meðan það féll undir varnarliðssamninginn.

Samkvæmt tölum frá mánaðamótunum ágúst, september síðastliðnum var búið að tilkynna breytingar á raflögnum í 266 íbúðum af þeim 340 sem taka á í notkun í fyrsta áfanga eða 66% af íbúðarhúsnæðinu sem tekið verður í notkun. Neytendastofa hefur látið faggilta skoðunarstofu skoða 130 þeirra eða um helming íbúðanna sem er mun hærra skoðunarhlutfall en Neytendastofa er almennt að láta framkvæma á skoðun neysluveitna í landinu. Lagfæringarnar hafa verið unnar í samræmi við tillögur sem þróunarfélagið lagði fram á fundi með Neytendastofu þann 10. júlí síðastliðinn.

Milli Neytendastofu og þróunarfélagsins hefur jafnframt tekist samkomulag um hvernig þessu stóra verkefni verður skipt upp. Í fyrsta lagi snýr sú uppskipting að húsnæði og rafbúnaði á svæðinu, þ.e. raflögnum í íbúðarhúsnæði, notkun rafmagnstækja og þess háttar. Í öðru lagi snýr samkomulagið að því hvernig staðið verði að umbreytingu raflagnakerfisins í takt við uppbyggingu og nauðsynlegrar breytingar innan dreifikerfisins á svæðinu.

Í framhaldi af því er stutt yfirlit um nánari stöðu þessara mála, núna þegar frumvarp þetta er lagt fram á Alþingi, enda er um að ræða brýna öryggishagsmuni sem stjórnvöld vilja standa vel að og hafa gert að mínu mati.

Varðandi húsnæði og rafmagnsbúnað sem neytendur nota í húsnæðinu hefur þróunarfélagið í samvinnu við Neytendastofu skipt verkefninu í tvo áfanga og jafnframt skilgreint nánar einstaka verkþætti hvors áfanga fyrir sig.

Í fyrsta áfanga í þessum hluta þessa viðamikla verkefnis hefur orðið að samkomulagi að skipt sé um greinatöflur í íbúðum með því að ný tafla kemur yfir eldri töflu. Í fjölskylduíbúðum er rafmagn fyrir tvo fasa, þ.e. fyrir 230 volt og einnig 150. Allar greinatöflur á íbúðum eru gerðar samkvæmt íslenskum reglum með sjálfvari og lekastraumsrofa. Ljós og tenglar í íbúðunum eru fyrir 230 volt og öll stærri raftæki sem fylgja. Önnur raftæki sem nota á í íbúðunum eru gerð fyrir 220–240.

Rafmagn í sameignaríbúðum þar sem eru 115 volt, þar hafa allir tenglar verið huldir og þar af leiðandi ekki í notkun til að koma í veg fyrir hættu sem gæti skapast af því. Þegar kemur að stúdíóíbúðum og einstaklingsherbergjum þá eru greinatöflur einnig samkvæmt íslenskum reglum í öllum íbúðum þ.e. með lekastraumsrofa og sjálfvari. Allir tenglar eru nú fyrir 230 volt.

Allir leigutakar eru að sjálfsögðu vel upplýstir á meðan á breytingunum stendur um hvernig málum er háttað og handbók var gefin út til leiðbeiningar og umfjöllun um mismun kerfanna. Leigutakar verða jafnframt upplýstir um breytingarnar jafnóðum og þær gerast. Allur rafbúnaður sem var tekinn í notkun á svæðinu verður skoðaður af öryggisfulltrúa Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar efh. og félagið mun sjá um viðhald þess rafbúnaðar sem fylgir íbúðunum.

Í öðrum áfanga þessa verkefnis á að gera nauðsynlegar breytingar á íbúðarhúsnæðinu og á raftækjum á svæðinu og verður unnið að uppbyggingu á nýju rafdreifikerfi þar sem spennan verður 400/230 og spennukerfið 50 rið eins og við þekkjum í íslenska kerfinu. Í framhaldi af því verður framkvæmd útskipting á raftækjum og rafkerfi uppfært eftir því sem þar á við. Þá verður skipt út aðalrafmagnstöflu fyrir hvert einasta hús. Kvíslum að greinatöflum verður skipt út þar sem nauðsynlegt er og stefnt að því að öll kerfi verði uppfærð að öðru leyti við íslenskar kröfur.

Frekari breytingar á rafkerfi alsvæðisins, þar með talið raforkudreifikerfinu sem Hitaveita Suðurnesja mun bera ábyrgð á, til samræmis við íslenskar reglur eru útlistaðar í verkáætlun frá þróunarfélaginu sem inn var skilað fyrir 1. október til Neytendastofu. Breytingar á rafkerfi bygginga til samræmis við íslenskar reglur eru því þegar hafnar af fullum krafti eins og sést á þessu yfirliti og upplýsingum frá Neytendastofu og þróunarfélaginu.

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdatími við umbreytingu kerfisins að fullu yfir í íslenskt kerfi að öllu leyti geti tekið þrjú ár. Það er það tímaviðmið sem við settum í þessum lögum en hins vegar miðað við hvernig gengur, miðað við hvernig dampurinn er í málinu þá er allt útlit fyrir að því verði lokið löngu fyrr. Rafkerfið mun því þegar aðlögunarfrestinum lýkur samræmast íslenskum reglum sem almennt gilda í okkar kerfi að öllu leyti.

Samkvæmt framangreindri skýrslu frá Neytendastofu sem einnig er byggð á upplýsingum frá þróunarfélaginu má vera ljóst að vel hafi tekist til um framkvæmdir á sviði öryggismála á þessu fyrrum varnarsvæði og vænti ég þess að með samstilltu átaki verði framkvæmdum lokið hið allra fyrsta við samræmingu rafkerfis á svæðinu við íslensk lög og reglur settar samkvæmt þeim svo að öllum öryggiskröfum verði fullnægt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. viðskiptanefndar til umfjöllunar.