Sala áfengis og tóbaks

Mánudaginn 15. október 2007, kl. 16:39:49 (561)


135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:39]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar og tók eftir því að hann talaði um stór og lítil skref hvað varðar lög um sölu á áfengi. Ég tók eftir því að hann talaði um að einungis ætti að leyfa sölu á léttvíni og bjór eins og kemur fram í frumvarpinu en ekki sterku víni.

Ég vil fá að heyra frekari rök hv. þingmanns fyrir því að ekki skuli gengið lengra. Eigum við með löggjöf sem þessari að hafa beina neyslustýringu á þessum varningi? Ég hlýddi vel á rök hans með frumvarpinu. Ég spyr: Hvers vegna ekki að ganga alla leið? Mér sýnist einmitt að með því að ganga þá leið sem frumvarpið segir til um sé verið að skerða þjónustu á sumum svæðum landsins hvað varðar framboð á þessum varningi. Ég held að það verði fyrst og fremst neikvætt fyrir ferðaþjónustuna og fyrir þá heimaaðila sem á þeim stöðum búa.

Hv. þingmaður nefndi nokkra staði þar sem engin verslun væri. En útsölustöðum ÁTVR með sterka drykki mun fækka gríðarlega verði þessi lög samþykkt á hinu háa Alþingi. Þess vegna spyr ég: Hvers vegna ekki ganga alla leið og heimila yfirfærslu á öllum þessum tegundum og ÁTVR yrði þar með lögð niður?