Fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju

Þriðjudaginn 16. október 2007, kl. 14:20:22 (607)


135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:20]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að renna í stuttu máli yfir feril þessa máls. A.m.k. í fyrri ræðu minni.

Í fyrsta lagi snýst málið um að ákveðið var að kaupa nýtt skip í staðin fyrir Sæfara sem hefur sinnt siglingum til og frá Grímsey. Menn fóru að svipast um eftir skipi á hæfilegu verði eða möguleikanum á að smíða nýtt og niðurstaðan varð sú að menn ákváðu að kaupa notað skip. Fyrstu forsendur þess að menn völdu þá leið vænti ég að hafi verið að í skýrslu Einars Hermannssonar kemur fram að hugsanlegt kaupverð skipsins sé 80 millj. og endurbætur 60 millj. eða 140 millj. alls. Þannig fóru menn af stað. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því að Vegagerðin, sem ég held að hafi ekkert sérstakt vit á skipum, velji þann kost að kaupa skip á einn fjórða af því verði sem nýtt skip kostaði, en því var lýst að það kostaði 600–700 millj. Þannig fer þetta mál af stað.

Það er greinilegt að verðmatið var í upphafi rangt. Það þarf enginn að efast um það. Svo margar skoðanir hafa farið fram á þessu skipi síðan og það oft verið endurmetið, m.a. af mönnum frá Siglingastofnun. Upphaflegt kostnaðarmat við endurbyggingu var vanmetið. Það liggur fyrir, en hvað um það? Verkefnið fer þannig af stað og þá hefjast verkferlar Vegagerðarinnar sem mér finnast að mörgu leyti mjög ámælisverðir og leiða þetta mál áfram. Eins og hv. fyrsti málshefjandi í dag vakti athygli á var strax farið að tala um 250 millj. kr. að lágmarki í að gera upp skipið.

Það er mjög margt að athuga í þessu ferli bæði hvað varðar ríkisstofnanir eins og Vegagerðina, útboðsferlið, aukaverkin sem ekki var samið um o.s.frv. Það sýnir í raun alveg ótrúlegan barnaskap við að endurbyggja skip að semja ekki um aukaverk og hvernig eigi að fara með þau.

Þá kemur að öðrum þætti þessa máls sem við komum að, þ.e. hvernig fjármögnun á að fara fram á slíku verki. Þar höfum við þá staðreynd að menn velja að nota 6. gr. heimild í fjárlögum til að færa fyrir því rök að unnið hafi verið eins og gert hefur verið. Um það standa vissulega deilur eins og um málið allt, eins og ég hef lítillega rakið.

En það sem vekur athygli er í fyrsta lagi að menn hafa ekki viljað skoða þetta mál vel. Það má minna á fund hv. samgöngunefndar frá föstudeginum 4. maí 2007 sem hafnaði því að skoða þetta mál. En þar segir, með leyfi forseta, í niðurlagi að ekki sé ástæða til að fjalla frekar um málið að sinni. Allar upplýsingar síðan hafa gefið tilefni til að skoða þetta mál betur. Nú fer meiri hluti fjárlaganefndar fram og segir að málinu skuli lokið af hennar hendi og hún sjái ekki ástæðu til að skoða málið frekar. Minni hluti fjárlaganefndar hefur hins vegar uppi þau sjónarmið að vilja skoða þetta mál ofan í kjölinn. Ég geri ráð fyrir því að það sé tilgangur minni hlutans í fjárlaganefnd að læra af þessu máli, skoða það alveg frá upphafi til enda, bæði verkferli, útboð og hvernig þessar milljónir og hundruð milljóna leggjast hvert ofan á annað. Verklag fjármálaráðuneytisins í þessu máli þarf einnig að skoða.

Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að mér finnst einkennilegt þegar ríkisendurskoðandi tekur sér það fyrir hendur að segja við fjármálaráðherra með sérstakri yfirlýsingu í dag hvað eigi að standa í fjárlögunum. Ég vissi ekki til að ríkisendurskoðanda væri ætlað að segja fyrir um fjárveitingar í fjárlögum. Mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að gefa slíka yfirlýsingu sjálfur vegna þeirrar athugasemdar sem ríkisendurskoðandi hefur við málið en ekki að ríkisendurskoðandi og fjármálaráðherra leggi slíka yfirlýsingu fyrir þingið.