Skuldasöfnun í sjávarútvegi

Miðvikudaginn 17. október 2007, kl. 15:46:21 (725)


135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég er dálítið sammála síðasta ræðumanni, hv. þm. Helga Hjörvar, í þessu máli. Auðvitað getum við haft áhyggjur af skuldum fyrirtækja og ekki síst skuldum sjávarútvegsfyrirtækja sem eru miklar. Aðalatriðið hlýtur þó að vera hvort það eru verðmæti á bak við þessar skuldir og miðað við að lánastofnanir veigri sér ekki við að lána fyrirtækjunum meta þær það svo að svo sé. Eftir því sem við þekkjum lánastofnanir vilja þær gjarnan hafa bæði belti og axlabönd til þess að vera öruggar um að fá lánin greidd til baka og vel það þannig að að því leyti til er þetta ekkert sérstakt áhyggjuefni.

Ég heyrði að hv. málshefjandi talaði um kvótakerfið, hann komst ekki alveg hjá því að kenna því dálítið um þetta, og það er sjálfsagt eilíft umræðuefni á hv. Alþingi hvort það er gott eða slæmt. Ég vil meina að það sé í aðalatriðum gott, a.m.k. sé ég ekki stöðuna fyrir mér ef það hefði ekki verið sett á á sínum tíma. Það var hræðilegt ástand í sjávarútvegi á þeim tíma þegar kvótakerfinu var komið á.

Ég hef ekki minni áhyggjur af ýmsu öðru sem varðar sjávarútveginn og þá má nefna háa vexti og sterka krónu. Ég hef áhyggjur líka af máli málanna sem er niðurskurðurinn í þorskveiðum og þrátt fyrir þær aðgerðir sem hæstv. iðnaðarráðherra, byggðamálaráðherra, talaði um sem stórkostlegustu mótvægisaðgerðir sögunnar hef ég ekki hitt nokkurn mann í mínu kjördæmi sem er sammála hæstv. iðnaðarráðherra með það að þetta séu góðar aðgerðir og að þær virkilega gagnist. Við heyrum daglega af uppsögnum í sjávarplássum þar sem burðarásar í viðkomandi byggðarlögum fækka fólki, segja upp fólki, og það er ekki hægt að sjá annað en að ríkisstjórnin sé mjög værukær gagnvart þessu öllu saman.