Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 14:35:16 (820)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:35]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra fyrir efnisleg svör við vangaveltum mínum og ég trúi því að reynt verði að standa vel að því að sameina þá málaflokka sem falla undir heitið matvælamál í matvælaeftirlitinu þar sem Landbúnaðarstofnun verður væntanleg burðarásinn.

Engu að síður veltir maður því fyrir sér hvort stofnun af þessari gerð sem víkkar eins mikið út starfssvið sitt og hér er um að ræða sé ekki í raun ný stofnun og hvort ekki þurfi þá að setja henni ný lög með nýjum markmiðum, nýju skipuriti o.s.frv. sem gæti kallað á endurskipulagningu einhverra starfa, en auðvitað skil ég að menn eru með þessu frumvarpi að reyna að tryggja réttarstöðu starfsmanna sem mér finnst mjög mikilvægt að gert sé.

Hvað varðar matvælaeftirlit sveitarfélaga vil ég segja, af því að hæstv. ráðherra segir að ekkert hafi verið um það rætt og yrði ekki gert nema í samvinnu við sveitarfélögin, að svo háttaði til að það var starfandi samráðshópur ríkis og sveitarfélaga sem ég átti sæti í sem fjallaði um flutning þessa verkefnis, eftirlitsstarfsemi sveitarfélaga almennt, til ríkisins. Byggingareftirlitið var þar undir og gert er ráð fyrir því í frumvarpi til mannvirkjalaga sem væntanlega verður lagt fram af hæstv. umhverfisráðherra að byggingareftirlitið verði flutt. Þar var talað um matvælaeftirlitið og þrátt fyrir mótmæli sveitarfélaganna um það efni reyndu fulltrúar ríkisins á forræði forsætisráðherra samt sem áður að knýja fulltrúa sveitarfélaganna til að fallast á slíkt. Það var að vísu ekki gert og málið var sett á ís og er enn þá í frosti sem betur fer.