Varamenn taka sæti

Þriðjudaginn 30. október 2007, kl. 13:38:31 (917)


135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

Varamenn taka þingsæti.

[13:38]
Hlusta

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Eins og áður hefur verið tilkynnt tóku sæti á Alþingi frá og með mánudeginum 22. október varamennirnir Dögg Pálsdóttir fyrir Ástu Möller, Erla Ósk Ásgeirsdóttir fyrir Birgi Ármannsson og Valgerður Bjarnadóttir fyrir Helga Hjörvar.

Þá hafa borist bréf tveggja þingmanna, þeirra Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að þeir séu á förum til útlanda í opinberum erindum og geti ekki sótt þingfundi á næstunni.

Samkvæmt þessum bréfum taka sæti á Alþingi frá og með deginum í dag þau Róbert Marshall, aðstoðarmaður ráðherra, fyrir Björgvin G. Sigurðsson og Guðný Helga Björnsdóttir bóndi, Bessastöðum, Húnaþingi vestra, fyrir Einar K. Guðfinnsson. Varamennirnir eru nú allir komnir til þings. Kjörbréf þeirra hafa þegar verið rannsökuð og samþykkt.

Varamennirnir hafa ekki áður tekið sæti á Alþingi og ber því að undirskrifa drengskaparheit að stjórnarskránni samkvæmt 2. gr. þingskapa.

 

[Dögg Pálsdóttir, 7. þm. Reykv. s., Erla Ósk Ásgeirsdóttir, 9. þm. Reykv. s., Valgerður Bjarnadóttir, 7. þm. Reykv. n., Guðný Helga Björnsdóttir, 5. þm. Norðvest., og Róbert Marshall, 2. þm. Suðurk., undirrituðu drengskaparheit um að halda stjórnarskrána.]