Verðsamráð á matvörumarkaði

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 10:41:17 (1025)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:41]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá þeim hv. þingmönnum sem rætt hafa þetta mál, fréttir gærdagsins voru bæði merkilegar og alvarlegar. Þær sneru að því að hugsanlega hefði átt sér stað ólögmætt verðsamráð fyrirtækja á matvörumarkaði. Ég fæ ekki betur séð en allir aðilar sem að málinu koma séu sammála um að það verði tekið til sérstakrar skoðunar og rannsóknar. Ég gat ekki skilið forsíðufrétt Morgunblaðsins á annan hátt en þann að hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, teldi ástæðu til að málið væri skoðað. Í sama streng tók forstjóri Bónuss, Guðmundur Marteinsson. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessi mál verði skoðuð. Það er sjálfsagt að þar til bær yfirvöld, sem hafa með rannsókn slíkra mála að gera, taki þau til skoðunar, þ.e. Samkeppniseftirlitið. Ef sú rannsókn leiðir í ljós að um ólögmætt verðsamráð þessara tilteknu fyrirtækja hafi verið að ræða er sjálfsagt að málið fari sína leið í dómskerfinu. Mér virðast allir þeir sem að þessari umræðu koma sammála um að málið þurfi að rannsaka og sjálfum finnst mér það sjálfsagt. Mér finnst reyndar óþarfi að setja málið í það samhengi að Samkeppnisstofnun sé í einhverju fjársvelti. Aðalatriðið er að upplýst verði hvort fyrirtæki á matvörumarkaði séu í einhvers konar aðför að neytendum. Ég held að við getum öll verið sammála um það og við ættum að vera sammála um að þær stofnanir sem eiga að fara með þessa hluti geri það.