Verðsamráð á matvörumarkaði

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 10:43:28 (1026)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

verðsamráð á matvörumarkaði.

[10:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessar fréttir í gær í fjölmiðlum, um hvernig verðlagningu er háttað í dagvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu og sjálfsagt um allt land, vekja óhug. Umfjöllunin ein, þó hún væri ósönn, vekur óhug. Fákeppni er komin á í þessum greinum. Fyrirsagnir sem birtast í fjölmiðlum eru um samráð um vöruverð, ólöglega verðhækkun að nóttu til, að vörur séu ekki ódýrari á vissum tímum. Ábyrgðarmenn þeirra fyrirtækja sem í hlut eiga segja í viðtölum: Jú, við sendum menn eldsnemma á morgnana út í aðrar verslanir til að sjá hvernig þeir hafa verðlagt um nóttina og svo erum við að breyta verði 100–200 sinnum á dag.

Ég tel að það sé sjálfsagt og nauðsynlegt að efla samkeppniseftirlit. En ef viljinn til brota er einbeittur dugar ekkert samkeppniseftirlit, þá er bara siðferðisbrestur á ferðinni. Ef þetta reynist svo þá erum við að sjá enn eitt afsprengi af græðgisvæðingu í samfélaginu, sjálftökurétti sem aðilar taka sér, rétti til að ganga í vasa almennings. Það eru þessir siðgæðisbrestir sem virðast vera komnir á í stórum hluta samfélagsins. (Forseti hringir.) Við höfum verið að tala um Orkuveitu Reykjavíkur og orkugeirann (Forseti hringir.) og nú erum við komnir á matvörumarkaðinn. Herra forseti. Þetta er stórmál, sérstaklega hvað varðar siðgæðið.