Afkoma og fjárhagur sveitarfélaga

Mánudaginn 05. nóvember 2007, kl. 15:12:01 (1204)


135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

afkoma og fjárhagur sveitarfélaga.

[15:12]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hv. þingmaður talar um það sem sérstaka kúgun eða sérstakt böl að vinna eigi að því með sveitarfélögunum að draga úr skuldasöfnun þeirra. Hefur það ekki einmitt verið aðalvandamálið að sveitarfélögin hafa safnað of miklum skuldum? Ef það er orðið gagnrýnisefni að ríki og sveitarfélög hafi komið sér saman um að vinna að því að draga úr slíkri skuldasöfnun þá er það málflutningur af nýjum toga verð ég að segja.

Það er verið að fjalla um þessi mál einmitt þessa dagana á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem nú er yfirstandandi og auðvitað verður haldið áfram að vinna að þessu. En skuldasöfnun sveitarfélaganna er vandamál á sama tíma og ríkið hefur verið að grynnka mjög verulega á sínum skuldum en nettóskuldir þess eru nú orðnar engar að heita má. En var það ekki einmitt ein af ástæðunum sem Seðlabanki Íslands gaf fyrir vaxtahækkuninni fyrir helgi og hv. þingmaður ræddi hér í þingsal Alþingis, að það væru of mikil útgjöld bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga og útgjaldaþenslan hjá opinberum aðilum væri of mikil? Væri þá ekki ráð að þeir sem gagnrýndu þá hækkun fyrir helgi og koma núna og gagnrýna stöðu sveitarfélaganna eða afstöðu ríkisstjórnarinnar til hennar reyndu að gera það upp við sig hvort þeir eru með frekari útgjöldum sveitarfélaganna og meiri skuldasöfnun eða á móti?