Lagarammi í orkumálum

Mánudaginn 05. nóvember 2007, kl. 15:33:42 (1220)


135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:33]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi veit náttúrlega stendur yfir vinna við að ljúka rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Henni á að ljúka 2009. Á meðan sú vinna fer fram er búið að frysta veitingu rannsókna- og nýtingarleyfa hjá iðnaðarráðuneytinu. Það veit fyrirspyrjandi fullvel.

Hvað varðar önnur tæki ætla ég ekki að gleyma einu stóru tæki sem er úthlutun losunarheimilda. Hv. þingmanni er auðvitað kunnugt um hvaða löggjöf er um það hér á landi og að við búum við ákveðnar aðstæður næstu fimm árin, frá 2008–2012. Ég hef sagt mjög skýrt í umræðum um þessi mál á síðustu vikum og mánuðum að hvað tekur við eftir 2012 veit enginn núna en þau fyrirtæki sem reiða sig á losunarheimildir skulu a.m.k. gera ráð fyrir því að þeirra þurfi að afla á markaði.