Tekjutap hafnarsjóða

Þriðjudaginn 06. nóvember 2007, kl. 14:04:08 (1297)


135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta að grunnatriðið er að meira fjármagn vantar inn til hafnanna, til rekstrar, til endurnýjunar og stofnkostnaðar í mörgum höfnum. Sveitarfélögum hefur verið þröngur stakkur skorinn hvað varðar að hafa ekki getað lagt fram mótframlag til að endurgera og endurbyggja hafnir sínar þannig að það eru ærin verkefni fyrir höndum. Þess vegna tel ég að þessi tillaga hv. þm. Bjarna Harðarsonar mætti snúast um að auka framlag til hafnanna, ekki síst vegna niðurskurðarins, en láta ekki í veðri vaka að taka eigi af því því lúsarlega fé sem ríkisstjórnin þykist verja til mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar á þorskveiðikvóta og erfiðs atvinnuástands sem skapast hefur vegna hans. Ég held að við öll séum meira og minna sammála um að þær tillögur ríkisstjórnarinnar eru fullkomlega í skötulíki og enginn veit hvernig á að útfæra þær, fyrir utan það hvað upphæðirnar eru lágar.

Ég fagna því að hv. þingmaður sé sammála mér um að breyta þurfi hafnalögum sem voru keyrð í gegn á sínum tíma. Ég vonast til að við getum staðið saman um að flytja aftur lög þar sem hafnirnar verði gerðar að grunnstoðum samfélags og atvinnulífs vítt og breitt um landið.