Tekjutap hafnarsjóða

Þriðjudaginn 06. nóvember 2007, kl. 14:38:37 (1304)


135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:38]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi þingsályktunartillaga skuli koma fram, það er mjög af því góða og veitir ekkert af að styrkja hafnir landsins. Út af þessum nýju hafnalögum, sem samþykkt voru fyrir fjórum til fimm árum, hafa verið gerðar miklar kröfur á sveitarfélögin af ríkinu, það er að segja um vopnaleit — eftir að turnarnir tveir voru sprengdir í Ameríku fóru í gang aðgerðir á heimsvísu um að passa að ekki væru flutt út smyglvopn frá Íslandi sem og öðrum höfnum. Af því að lítil höfn eins og höfnin í Sandgerði flytur út farm af sjávarafurðum til Danmerkur einu sinni í mánuði kostaði það fleiri milljónir að standa vakt til að koma í veg fyrir að vopn yrðu flutt til erlendra landa.

Þetta hefur reynst öllum höfnum landsins mjög dýrt, fyrir svo utan það að þær þurfa að vera með mannaðar vaktir við skip og lokaðar hafnir. Hafnarmannvirkin nýtast miklu verr en áður út af því. Þetta skapar ýmis vandamál og kostnað fyrir allar hafnir landsins sem á annað borð flytja eitthvað á erlendan markað. Þetta er ótrúlegt en þetta er samt staðreynd og sannleikur.

Ég hef bent á það varðandi þessar mótvægisaðgerðir að allur fiskurinn á fiskmarkað er nánast patentlausn fyrir hafnirnar. Og meira en það, það lagar líka stöðu sveitarfélaganna, það hækkar tekjur sveitarfélaganna í gegnum útsvar, það hækkar tekjur ríkissjóðs vegna þess að fiskur sem er í dag verðlagður af Verðlagsstofu á 140–150 kr., þá er ég að tala um þorsk, er seldur á mörkuðunum fyrir yfir 300 kr. kílóið, upp í 350 kr. Það leiðir af sér að hafnargjöld, sem eru prósenta af aflaverðmæti, hækka þá um helming við þennan gjörning, allur fiskur farinn á fiskmarkað. Ef fiskverð, stuðullinn sem borgað er af, er 300 kr. í staðinn fyrir 150 kr. þá er það nákvæmlega helmingshækkun sem kemur í hafnarsjóð. Bara vegna þessara breytinga sem hægt væri að gera. Það ætti að vera sjálfstæðismönnum mikið kappsmál að berjast fyrir frelsi til athafna og gjörða og að markaðslögmálin væru virt.

En þeir hafa náttúrlega ekki staðið í stykkinu í þessu. Þeir hafa talað á hátíðis- og tyllidögum um þessi mál og í kosningabaráttu. En þegar á reynir gera þeir ekkert með það, hvorki til lands né sjávar, að reyna að stuðla að markaðslausnum eða láta markaðslögmálið ráða. Þeir eru frekar eins og kommúnistarnir í Sovétríkjunum hér á árum áður sem vörðu hagsmuni fárra hópa, voru í hagsmunagæslu fyrir sérhagsmunahópa en létu hagsmuni heildarinnar lönd og leið. Það er nú það sem blasir við manni.

Ég fagna þessari þingsályktunartillögu sem slíkri, hæstv. forseti, og tel að best væri að framsóknarmenn sneru af villu síns vegar og tækju upp aðra hugsun varðandi fiskveiðistjórnarkerfið og öll vinnubrögð í sjávarútvegi. Ég ráðlegg þeim að endurskoða stefnu sína þar sem fyrst.