Háskóli á Ísafirði

Þriðjudaginn 06. nóvember 2007, kl. 15:50:15 (1318)


135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:50]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir sjónarmiðin og röksemdirnar sem hv. fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps, Kristinn H. Gunnarsson, flutti áðan í framsöguræðu sinni fyrir frumvarpinu. Enn sem komið er verður ekki séð að mikill ágreiningur sé kominn fram um efni þess eða þau sjónarmið. Vissulega er hægt að taka undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að vert væri að skoða það að flytja sérstaka breytingartillögu við fjárlög um það að veita fjármuni til þessa verkefnis fljótlega þannig að framkvæmdir gætu komist í gang ef vilji þingmanna er að standa þannig að.

Þau orð sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafði eftir fyrrverandi menntamálaráðherra Birgi Ísleifi Gunnarssyni varðandi Háskólann á Akureyri um að ekkert væri raunhæfara í byggðamálum en að færa menntun út í byggðir landsins eru sjónarmið sem við þurfum að skoða. Ég tek undir þau sjónarmið heils hugar.

Það er áætlað að um 150 manns stundi fjarnám á Vestfjörðum. Ef myndarlega væri staðið að uppbyggingu háskóla á Vestfjörðum mætti ætla að sá fjöldi sem sækti þá skólastofnun yrði töluvert meiri. Þau sjónarmið og þau atriði gera það að verkum að ég tel réttlætanlegt, og meira en það, að samþykkja það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Þá er spurningin hvort tíminn sé réttur í sambandi við þetta mál. Er eðlilegt að leggja út í eða hugsa um framkvæmdir við háskóla á Ísafirði eins og nú árar? Hefur ekki háskólum fjölgað? Er ekki komið nóg? Er nokkur ástæða til að bæta við? Staðreyndin er sú að þegar talað var um háskóla á Akureyri sögðu margir: Það er ekki möguleiki, þetta gengur ekki, þetta er ekki hægt. Það er verið að útþynna háskólanám á Íslandi.

Reynslan hefur orðið önnur. Þegar maður kemur í háskólana á Akureyri, að Hólum, Hvanneyri og Bifröst sér maður að þarna eru vaxandi þekkingarsetur sem hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Það að sjá það starf blómstra hvetur mann til þess að hugleiða hvort ekki sé möguleiki á því og rétt að skoða hlutina í öðru ljósi hvað varðar fleiri staði á landinu.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé mikilvæg mótvægisaðgerð en ekki bara mótvægisaðgerð eins og nú árar varðandi Vestfirði að koma á háskóla á Ísafirði, heldur sé þarna spurningin um að hugsa hlutina út frá nýjum sjónarmiðum og nýjum leiðum til þess að skjóta styrkri stoð undir byggð á þessu svæði á grundvelli vitsmuna og þekkingar. Miðað við það sem við höfum séð gerast annars staðar þar sem háskólar hafa tekið til starfa er ég ekki í nokkrum vafa um að þarna yrði um mjög jákvæðan hlut að ræða.

Virðulegi forseti. Með sama hætti og ég tel að afleggja verði stefnu sem skilar ekki árangri hljótum við sem viljum sjá blómlega byggð um allt land að leita nýrra leiða, leiða sem móta traustar byggðir grundaðar á arðsköpun, þekkingu og dugnaði fólksins. Með því að samþykkja þetta frumvarp leggja þingmenn sitt lóð á vogarskál nútímalegrar byggðastefnu, mótað á grunni þekkingar, hagkvæmni og hugvits.