Háskóli á Ísafirði

Þriðjudaginn 06. nóvember 2007, kl. 16:09:18 (1324)


135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:09]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir við þetta mál. Ég hafði svo sem búist við því að hann legðist á sveifina bæði með okkur sem flytjum málið og flokksfélögum sínum á Vestfjörðum, þannig að það kemur mér ekki algjörlega á óvart að hann skuli styðja málið eins eindregið og fram kom í máli hans.

Ég geri ekki athugasemdir við að stjórnarflokkarnir í nýrri ríkisstjórn setji mál af þessum toga í nefnd til athugunar og undirbúnings, það er eðlilegt að þeir sem koma nýir að stjórnarborðinu gefi sér tíma til að fara yfir það sem fyrir liggur og skoði valkostina í því, því að þeir eru auðvitað fleiri en einn og frumvarpið dregur einn valkost skýrt fram sem er þekktur og hefur verið farinn og góð reynsla er af. Ég gat þess einmitt í framsöguræðu að til væru fleiri útfærslur vegna þess að ég þykist vita að fleiri séu að hugsa á þeim nótum hvort ekki sé réttara að fara aðra leið til stofnunar sjálfstæðs háskóla en bent er á í frumvarpinu og vildi því vera undir það búinn að geta mætt þeim sjónarmiðum og sett það fram strax í upphafi að við erum tilbúin til að ræða slíka hluti, enda hafi þeir sama markmið og frumvarpið stefnir að, sjálfstæða skólastarfsemi á Ísafirði.

Ég held að menn eigi að taka öllu slíku með opnum huga. Í þessu máli er líklega að ég hygg, ég vil leyfa mér að halda því fram, þingmeirihluti fyrir málinu. Fyrir liggur afstaða Vinstri grænna, að ég hygg alls flokksins, Framsóknarflokkurinn hefur það í sinni stefnu að stofna háskóla á Ísafirði, Frjálslyndi flokkurinn styður málið og ég veit að það er mikill stuðningur við þetta mál í báðum stjórnarflokkunum.