Stjórnunarkostnaður Ríkisútvarpsins ohf.

Miðvikudaginn 07. nóvember 2007, kl. 14:48:27 (1407)


135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

stjórnunarkostnaður Ríkisútvarpsins ohf.

141. mál
[14:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör við þeim fyrirspurnum sem ég hef lagt hér fram, en það endurspeglast og kemur þar þá fram og er staðfest að launakostnaður vegna útvarpsstjóra hefur hækkað um milli 90 og 100% frá því að fyrirtækinu var breytt í opinbert hlutafélag. Það hlýtur að sjálfsögðu að vekja upp spurningar um það hvort fyrirkomulagsbreyting af þeim toga að breyta opinberum stofnunum eða fyrirtækjum í hlutafélög á grundvelli hlutafélagalaga þýði þar með að menn hafi eitthvað frjálsari hendur til að ákveða launakjör, hvort sem það er forstjórinn eins og í þessu tilviki eða hugsanlega aðrir starfsmenn.

Ég er ekki viss um að það hafi endilega vakað fyrir þeim sem fóru í þann leiðangur að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag að niðurstaðan ætti að verða að launakostnaður einstakra stjórnenda mundi hækka svona mikið, jafnvel þótt kerfisbreytingar innan húss þýði að silkihúfunum fækki eitthvað eins og ráðherrann gerði ágætlega grein fyrir í svari sínu. Engu að síður hækka laun einstakra yfirmanna umtalsvert og langt umfram það sem gengur og gerist á vinnumarkaði. Það sem var athyglisvert í svari ráðherrans var m.a. að launakostnaður almennra starfsmanna hefði ekki breyst hlutfallslega — enda væru samningar ekki lausir. Mátti kannski draga þá ályktun að það kæmi að því þegar farið verður í samninga á næstunni að starfsmenn mættu búast við hlutfallslega sömu launahækkun.

Þetta er auðvitað athyglisvert. Mér fannst nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar hér fram því að þær eru tvímælalaust innlegg í þá umræðu sem fram mun fara í samfélaginu á næstu mánuðum í tengslum við laun og launakjör almennt.