Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 08. nóvember 2007, kl. 16:04:24 (1487)


135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það væri fróðlegt en kannski ekki sanngjarnt að blanda sér í umræðurnar undir það síðasta því að einhverjir þingmenn hafa lokið ræðurétti sínum. Auðvitað er hægt að segja eins og síðasti ræðumaður gerði, að í hinum besta heimi allra heima græði allir alltaf á öllu og allir séu góðir við alla. En ég held að það þýði nú ekki að horfa fram hjá þeirri staðreynd að það er grundvallarmunur á nálgun einkaaðila og einkafyrirtækja og þeim grunni sem þau starfa á og hinum harða heimi nútímaáhættukapítalisma. Þar er gróðinn æðsta boðorð og yfirlögmál í starfrækslu fyrirtækjanna. Rétt eins og Seðlabankinn hefur eitt yfirmarkmið, um að halda aftur af verðbólgu, hafa fyrirtækin eitt markmið, að græða og skila eigendum sínum arði. Það breytist ekkert þótt þau starfi í þróunarríkjum eða tengist þróunarsamvinnu. Þau eru á höttum eftir gróðaveitum og þess vegna þarf að stíga hægt til jarðar í öllum slíkum tilvikum.

Í öðru lagi langar mig til aðeins að víkja að ræðu hv. þm. Karls V. Matthíassonar sem flutti kristilega húmaníska hugvekju, mjög fallega. Hann talaði um gott hjartalag og kærleika sem skiptir miklu máli að hafa að leiðarljósi og vék m.a. að áhugaverðri þróun í stjórnmálum Mið- og Suður-Ameríku. Það væri einnar messu virði að ræða þær merkilegu breytingar sem gengið hafa yfir í þeirri álfu. Hvers vegna skyldi það nú vera að sósíalismi eða jafnaðarstefna hafi farið sigurför um þá álfu og þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir í fjölmörgum Mið- og Suður-Ameríkuríkjum fikri sig áfram á grundvelli nýrrar hugmyndafræði? Sú hugmyndafræði er í grunninn ekkert annað en uppreisn gegn þeim kapítalisma sem upp á þessar þjóðir var troðið, ekki síst af Bandaríkjum Norður-Ameríku sem höfðu þessa heimsálfu í bakgarði sínum nánast sem hjálendu og vildu geta ráðið þar lögum og lofum og skapað olnbogarými fyrir stórfyrirtæki sín. Af því fara miklar sögur eins og kunnugt er. Ég beið nú eiginlega bara eftir því að hv. þingmaður færi að nefna höfðingjana þá Chavez og Castro og aðrar slíka. Hann var næstum þar kominn í ræðu sinni að mér fannst en lét þar staðar numið.

Það er stórmerkilegt að það hefur orðið þróun sem sprettur úr jarðvegi gífurlegar misskiptingar sem gengur svo langt og út í öfgar að almenningur gerir uppreisn og kýs sér til forustu stjórnmálamenn og flokka og þjóðhöfðingja sem skera upp herör gegn þessari hugmyndafræði. Það væri gaman að sjá að svipaðir hlutir gerðust víðar þar sem misskiptingin er af því tagi, eða nálgast það sem hún hefur verið í þessari heimsálfu. Reyndar er það frægt að sennilega er þjóðarauðnum hvergi nokkurs staðar jafnhrikalega misskipt og í sumum löndum þessarar heimsálfu þar sem menn hafa komist upp í að 1% íbúa eigi yfir 90% af öllum verðmætum, ef ég man rétt.

Ég ætlaði að gera nokkur önnur atriði að umtalsefni, sérstaklega þó eitt. Það eru hinar væntanlegu stórauknu heræfingar og lofthelgis- eða loftrýmiseftirlit sem hæstv. utanríkisráðherra boðaði að hluta í ræðu sinni í morgun, í innskoti í ræðu sína í morgun en af því mun hafa verið fréttaflutningur í hádeginu. Á meðan við áttum orðastað um utanríkismál voru sagðar fréttir í hádeginu þar sem vitnað var í hæstv. forsætisráðherra og hann boðaði enn frekara fagnaðarerindi af þessu tagi. Hann sagði að til viðbótar þeim þjóðum eða ríkjum sem utanríkisráðherra nefndi, sem voru Bandaríkjamenn, Frakkar, Norðmenn, Danir, Spánverjar, ef ég man rétt, væru Hollendingar, Kanadamenn, Pólverjar og fleiri áhugasamir.

Þá vakna spurningar um hvort hér verði örtröð, bara biðröð eftir því að fá að stunda loftrýmiseftirlit eða hvað við nú viljum kalla það. Á mannamáli þýðir það væntanlega, ef ég er ekki að misskilja hlutina, að hingað koma orrustuflugsveitir úr herjum þessara ríkja — með þeim kemur væntanlega þó nokkur liðsafli því að það er talsverður mannskapur á bak við slíkar sveitir — og verða við flug eða æfingar lengur eða skemur og uppihaldið á okkar kostnað. Nú sé ég ekki að þrátt fyrir hinar myndarlegu fjárveitingar sem ætlunin er að setja í svokölluð varnarmál í fjárlagafrumvarpinu, sem mér reiknast til að séu upp á einn og hálfan milljarð eftir því hvernig það er talið, rúmist mikil útgjöld til þessa. Spurningin er því: Stöndum við strax frammi fyrir því að vanáætlað sé á þessa liði í fjárlögum næsta árs og útgjöldin enn meiri en þar er gert ráð fyrir? Er það ekki rétt skilið að með þetta fari svipað og heræfingarnar, bæði þær árlegu heræfingar sem eru á grundvelli samningsins við Bandaríkjamenn, þ.e. viðaukans frá síðasta hausti, og þær heimsóknir sem ætlaðar eru samkvæmt samkomulaginu við NATO? Hvaða fjármunum verður þá varið í þetta beint í formi þess kostnaðar sem á okkur lendir vegna uppihalds herjanna? Hvaða fjármuni bindur þetta hjá öðrum stofnunum, t.d. Landhelgisgæslunni? En Landhelgisgæslan verður væntanlega að vera á bakvakt með þyrlubjörgunarsveit o.s.frv. tengt þessum æfingum eða brölti, eins og hv. þm. Ragnheiður Árnadóttir réttilega leggur mér í munn að ég kalli oft slíkar æfingar.

Verðum við ekki að velta þessu betur fyrir okkur, Íslendingar, þegar við tölum um viðfangsefni af því tagi sem nú blasir við okkur og menn nefna auknar siglingar olíuskipa eða umferð um lögsöguna? Er þá brýnast að bregðast við slíku með auknu flugi herflugvéla? Ef við viljum tryggja betur öryggi okkar og vernda okkar umhverfi vegna aukinnar skipaumferðar og flutninga á olíuvörum eða öðru slíku eru það þá útgjöld þarna sem kalla mest að? Ættum við kannski þvert á móti að efla okkar eigin borgaralegu stofnanir á sviði björgunarstarfsemi og mengunarvarna, setja reglur um siglingar við landið og fylgja þeim eftir á okkar eigin forsendum?

Ég held að það verði ekki undan því vikist að skoða þetta og ræða og láta þetta ekki bera stjórnlaust að höndum og tilviljanakennt, eins og mér finnst að hafi gerst fram að þessu. Grundvallarumræðan hefur í raun aldrei farið fram, a.m.k. ekki á vettvangi stjórnmálaflokkanna sameiginlega eins og þó hefur verið lofað að yrði gert. Ég endurtek spurningu mína um það: Hverju sætir það að hinum margboðaða samskiptavettvangi á þessu sviði skuli ekki hafa verið komið á, jafnmikið og lengi og um hann hefur verið talað og jafnoft og honum hefur verið lofað?

Hér hefur framboð til öryggisráðsins líka verið nefnt og mætti ýmislegt um það mál segja. Ég dreg ekki í efa að það sé eftir atvikum ágætlega staðið að undirbúningi af okkar hálfu, kynningu á landinu í framboðsferlinu sjálfu. Það breytir engu um að menn hefðu átt að leggja betur niður fyrir sér grundvöll þessarar ákvörðunar um að fara í framboð áður en hún var tekin. Það breytir heldur engu um að eftir verður sá vandi úr að vinna að sómi verði af þátttöku okkar þar í tvö ár ef við komumst þangað inn. Þá þurfum við að standast þrýsting og glíma við allt aðra hluti en í framboðsferlinu sjálfu. Við þurfum í fyrsta lagi að hafa bolmagn til að setja okkur inn í mál á sjálfstæðum forsendum og þekkingu á þeim flóknu viðfangsefnum sem fyrirvaralítið geta komið upp í starfsemi öryggisráðsins. Við þurfum þá að hafa bein til að standast þrýsting og taka sjálfstæðar ákvarðanir ef við ætlum að gera það á annað borð.

Hv. þm. Árni Páll Árnason nefndi að okkur væri afar vel tekið af ýmsum smáríkjum og eyþjóðum og við værum að setja í gang ýmiss konar samstarfsverkefni við þau. Auðvitað vonum við að það sé allt saman af góðum hug og í alvöru gert en ekki bara til þess að fá hjá þeim atkvæði í einni kosningu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að á því sviði eigi okkar áherslur að liggja. Ég held að Ísland eigi ekki að vera með stórmennskubrjálæði í alþjóðamálum heldur horfast í augu við þá staðreynd að við erum í hópi smærri ríkja. Við erum vissulega rótgróið norrænt lýðræðisríki og byggjum á sterkri lýðræðishefð. Við vorum lengi smæsta aðildarríki Sameinuðu þjóðanna og getum talið okkur þetta allt saman til tekna. En væri ekki einmitt rökrétt að við einbeittum okkur að því og beittum kröftum okkar ekki síst að því að styðja við bakið á nýsjálfstæðum smáríkjum og öðrum sem búa við svipaðar aðstæður og við gerum?

Ég gæti sannarlega tekið undir það að á þessu sviði ættu áherslur okkar ekki síst að liggja, í þróunaraðstoð og stuðningi við smærri ríki sem við gætum út frá okkar eigin reynslu og aðstæðum lagt lið. Ég hef sjálfur hreyft þeirri hugmynd að Ísland bjóðist til þess á alþjóðavettvangi að hýsa einhvers konar smáríkjastofnun í samhengi við Sameinuðu þjóðirnar, sem ég held að sé full þörf fyrir í veröldinni. Í raun eru hagsmunir smáríkja og þeirra staða í veröldinni á margan hátt svo gjörólík stórveldunum að það er full þörf á að þau fái skýrari stöðu og að þeirra málefnum sé skipulegar fyrir komið í alþjóðastjórnkerfinu en er í dag.

Ég held reyndar að sú mynd sem smáríkin hafa mörg hver af Íslandi sé svolítið fegruð. Ég hef rekið mig á það að það er ótrúlega algengur misskilningur að Ísland sé hlutlaust land, tilheyri jafnvel hlutlausu blokkinni, NAM-hópnum, sem við vitum auðvitað að er ekki. En hvað um það.

Að síðustu vil ég nefna að Ísland mætti að mínum dómi sinna betur stórum og miklum verkefnum á alþjóðavettvangi. Þá á ég almennt við málaflokkinn afvopnunar- og friðarviðleitni. Mér finnst afvopnunarmálin gleymast í alþjóðaumræðunni þessi missirin. Því miður sjáum við frekar afturför en framför á ýmsum sviðum alþjóðasamninga eða viðleitni til að ná fram alþjóðasamningum sem þó er ætlað að reyna að halda aftur af vígbúnaði og hindra útbreiðslu kjarnorkuvopna eða vígbúnaðarkapphlaup í hefðbundnum herafla. Mér finnst að Ísland mætti vera virkara og duglegra í baráttunni fyrir alþjóðasamningi um vopnaviðskipti og við ættum að setja okkur það takmark að hafa í forgangi að næsti stóri alþjóðasamningur sem tengist afvopnunar- og friðarmálum verði samningur um reglur, eftirlitsverk og gagnsæi í vopnaviðskiptum.

Ég minni á þá stóru vá sem steðjar að NPT-samningnum, um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna og þörfina á að gefast ekki upp í baráttunni fyrir því að fjölga ekki ríkjum sem koma sér upp kjarnorkuvopnum heldur sinni kjarnorkuveldin þeirri skyldu samningsins — þau þurfa að gerast aðilar að honum þau sem það eru ekki fyrir, þ.e. nýju kjarnorkuveldin — að fækka kjarnorkuvopnum og afvopnast en ekki öfugt.

Rússar segja upp samningnum um bann við takmörkun hefðbundins vígafla í Evrópu. Önnur deild rússneska þingsins afgreiddi það mál í gær ef ég tók rétt eftir. Það geta tæpast talist sérstök gleðitíðindi eða fagnaðarefni að málin hafi þróast á þann veg í Evrópu. Þar hafa að sjálfsögðu áhrif áform Bandaríkjamanna um að koma sér upp eldflaugavarnarkerfi og radarstöðvum í andstöðu við Rússa. Afleiðingarnar virðast þær að það gæti stefnt í aukinn vígbúnað á nýjan leik í Mið- og Austur-Evrópu í stað afvopnunar sem auðvitað er ærin þörf fyrir. Innganga nýrra ríkja í NATO hefur því miður haft í för með sér aukinn vígbúnað. Inngönguskilyrðin hafa auðvitað ósköp einfaldlega verið þau að nýju aðildarríkin skuldbindi sig til að verja miklum fjármunum til vígbúnaðar í kjölfar aðildar, fjármunum sem þau hafa sára þörf fyrir að setja í aðra hluti í umhverfismálum, bæta félagslegar aðstæður o.s.frv.

Ég held því að Ísland þurfi að endurskoða afstöðu sína til þessara mála, ekki síst til þess að hlíta meira og minna gagnrýnislaust leiðsögn forustuafla NATO, eigum við að vera í færum til að hafa uppi þá sjálfstæðu stefnu og afstöðu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, skyldum við lenda þar inni, sem við þurfum að hafa (Forseti hringir.) til þess að ég a.m.k. geti gert mér vonir um að sómi verði þá af þátttöku okkar þar.