Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra

Fimmtudaginn 08. nóvember 2007, kl. 16:52:56 (1497)


135. löggjafarþing — 21. fundur,  8. nóv. 2007.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:52]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram í dag um utanríkismál, hún hefur verið mjög málefnaleg og komið víða við. Talað hefur verið um hnattvæðinguna, þróunaraðstoðina, breytt viðhorf í öryggis- og varnarmálum, framboðið til öryggisráðsins, leikreglur alþjóðastofnana, samspil Alþingis og utanríkisráðuneytis og margt fleira. Ég get auðvitað ekki komist yfir að tæpa á öllu sem hér hefur verið talað um, kannski kemst ég ekki einu sinni yfir að svara öllum þeim spurningum sem hér komu fram en ég ætla samt að reyna að gera mitt besta.

Í fyrsta lagi um hnattvæðinguna sem kannski má segja að sé tískuumræða í dag. Hnattvæðingin er í sjálfu sér ekkert mjög flókið fyrirbæri og þarf ekki að hafa til hennar annaðhvort jákvæða eða neikvæða afstöðu vegna þess að í grundvallaratriðum snýst hún bara um tækni annars vegar og tækifæri hins vegar, þ.e. að komin er ný tækni til sögunnar sem gerir mönnum kleift að flytja fjármagn mjög hratt á milli landa og á allt annan hátt en áður var og það hefur skapað alveg nýjar aðstæður í heiminum. Flutningar fólks á milli landa eru líka miklir og það er af því að fólk er að leita sér að nýjum tækifærum og fyrirtækin leita að tækifærum. Þetta hefur alltaf verið drifkrafturinn á bak við hnattvæðingu, þ.e. leitin að tækifærum og ný tækni, hvort heldur núna eða þegar víkingarnir fóru til Konstantínópel á sínum tíma og hingað til Íslands eða Spánverjarnir til Ameríku og alltaf hefur þetta haft bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Aðalatriðið er að reyna að styðja við það jákvæða í hnattvæðingunni og vinna gegn því sem er neikvætt og það er verkefni okkar allra, hvort sem það er á heimaslóð eða á alþjóðavettvangi. Þess vegna tek ég undir að þetta er ekki spurningin um að vera með eða á móti hnattvæðingunni, fyrst og fremst er hún að eiga sér stað og við reynum að styðja við það sem gott er og vinna gegn skavönkunum sem henni fylgja. Þetta segi ég af því að kallað var eftir skoðun minni á hnattvæðingunni og þetta er sú skoðun sem ég hef í grundvallaratriðum á henni. Síðan er hægt að fara út í einstaka anga en það er bara miklu flóknara umræðuefni en svo að það takist að gera því einhver skil hérna.

Málefni friðargæslunnar í Afganistan og staðan í Afganistan hefur nokkuð komið upp og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ræddi það mál ásamt með öðrum hér. Það er rétt sem þar kom fram að þetta er mjög flókin og erfið staða sem þarna er uppi og kannski ekki auðvelt að sjá hvernig þessi mál verða leyst. Hins vegar er það ekki rétt þegar þingmaðurinn segir að staðan núna sé verri en hún hefur áður verið. Staðan hefur oft áður verið svo miklu verri í Afganistan en hún er núna. Og af því að hér komu bókmenntirnar til umræðu, m.a. bækurnar Bóksalinn í Kabúl og Flugdrekahlauparinn eftir Khaled Hosseini, ætla ég að bæta hér einu verki enn inn í þá mynd, sem er reyndar ný bók eftir þennan ágæta höfund sem heitir A Thousand Splendid Suns eða Þúsund bjartar sólir. Sú bók er einmitt skrifuð út frá sjónarhorni ungra kvenna sem farið hafa í gengum þessa atburðarás alla í Afganistan á umliðnum árum. Flugdrekahlauparinn er skrifuð út frá sjónarhorni ungs manns, þetta er sjónarhorn ungra kvenna og það sýnir okkur þá skelfilegu óöld sem þarna ríkti og sem við fylgdumst auðvitað með í fréttum með hryllingi, daglegum aftökum, mannréttindabrotum á konum sem fengu ekki að fara ferða sinna, fengu ekki að mennta sig o.s.frv. Staðan er vissulega erfið, hún er vandasöm en hún hefur oft verið verri.

Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og vitna þar í hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur að við verðum að sýna ákveðna staðfestu í þessu máli. Við ákváðum að vera með, þetta eru 38 þjóðir, og þó að það hafi litið vel út fyrstu vikurnar og síðan hafi kannski gengið heldur verr þá getum við ekki dregið okkur til baka á þeim forsendum. Við getum skoðað hvort við erum að fara rétt að, alþjóðasamfélagið, hvort við þurfum að standa öðruvísi að hlutunum. Ég held reyndar að hægt sé að gera betur í Afganistan og að leggja þurfi meiri áherslu á almennt uppbyggingar- og mannúðarstarf, leggja þurfi meiri áherslu á að lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í Afganistan takist að ná árangri, að það sé ekki bara hjálparlið sem sé þar að verki heldur sé staðið þannig að málum að stjórnvöld séu raunverulega að sýna árangur því að annars munu þau aldrei njóta stuðnings heima fyrir og það er mikilvægt að þessi stjórnvöld njóti stuðnings heima fyrir þó að þau séu ekki gallalaus.

Það er líka mikilvægt að við tölum fyrir þessum málum hér vegna þess að það skortir líka stuðning fyrir þessu á Vesturlöndum. Það vantar stuðning í öllum ríkjum á Vesturlöndum, 60% Kanadamanna eru t.d. mótfallnir því að Kanadamenn séu í Afganistan og það er ekkert skrýtið því að það er helst Kanada sem er að missa menn í átökunum í Afganistan, eða kannski 70%. (Gripið fram í.) Þetta er umræða sem við verðum að taka og við verðum að mínu viti að sýna ákveðna staðfestu í þessu en við verðum auðvitað líka að vera gagnrýnin á það hvernig alþjóðaliðið fer þarna fram og reyna að finna leiðir til að bæta úr þar sem við getum gert það.

Þeirri spurningu var varpað fram varðandi varnar- og öryggismálin hvort hér væri biðröð í lofthelgiseftirlit eins og helst mætti skilja á þeirri niðurstöðu sem fékkst hjá NATO í morgun þar sem aðildarríkjum NATO gafst kostur á að bjóða sig fram til loftrýmiseftirlits á Íslandi. Ég skal ekkert um það segja en rifja það samt upp að niðurstaðan í fastaráði NATO í sumar, ef ég man rétt í júlí, var sú að mikilvægt væri að hér væri rekið loftvarnarkerfi, ratsjárkerfið sem við rekum í dag, og að loftrýmiseftirlit þyrfti að vera fjórum sinnum á ári. Meira að segja var tekið fram að þetta væri ekki fordæmisgefandi fyrir NATO en það óttuðust baltnesku ríkin vegna þess að það hefði dregið úr loftrýmiseftirliti á þeirra svæði. Þetta gilti því einungis fyrir Ísland og það er það sem verið er að fylla inn í núna, þá niðurstöðu að loftrýmiseftirlit þyrfti að vera fjórum sinnum á ári og að mikilvægt væri að reka okkar ratsjárkerfi. Ratsjárkerfið okkar er framlag til öryggis okkar og það er líka framlag til NATO. Við skulum ekki horfa fram hjá því vegna þess að gert er ráð fyrir að það samrýmist Evrópukerfi NATO, NATINEADS, og þannig sé yfirsýn yfir þetta svæði allt frá Evrópu og yfir í Norður-Atlantshafið og kerfið er mikilvægt fyrir norðurslóðir.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spurði hvenær frumvarps um Ratsjárstofnun væri að vænta. Þess er að vænta fljótlega. Það er verið að vinna frumvarp í ráðuneytinu. Ég geri ráð fyrir að það verði nokkuð ólíkt því frumvarpi sem var unnið í ríkisstjórninni á síðasta vori af því að ég tel mikilvægt að taka á ýmsum valdheimildum sem tengjast varnar- og öryggismálum og er að reyna að ná utan um það í frumvarpinu. Það verður væntanlega kynnt áður en langt um líður þó að ég þori ekki að lofa neinu í því sambandi.

Varðandi það að þetta ratsjárkerfi okkar væri ekki nauðsynlegt og við þyrftum ekki lofthelgiseftirlit, eins og mátti skilja á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni — rökin sem hann færði fyrir því voru að bandaríski herinn hefði ekki talið þörf fyrir slíkt kerfi og ekki þörf fyrir veru sína hér — þá er það eitthvað sem við verðum að leggja sjálfstætt mat á. Við verðum að leggja sjálfstætt mat á það hvort við teljum þessa þörf til staðar. Við gerðum það m.a. með því að leita á vettvang NATO og fá þeirra mat á stöðunni og þetta er niðurstaða þeirra. Ég er þeirrar skoðunar, og hef verið lengi, að við þyrftum að vinna sjálfstætt hættumat, ógnarmat hef ég stundum kallað það, og þá ættum við að reyna að velta fyrir okkur hvaða vá það er sem helst getur að okkur steðjað og hvaða viðbúnað við þá þurfum. Það er þess vegna sem ég hef sett af stað faglega vinnu við hættumat undir forustu prófessors Vals Ingimundarsonar, en sú vinna er að fara af stað um þessar mundir.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í máli þingmanna, að mikilvægt sé að gera auknar kröfur til fagmennsku í þróunarmálum. Ég tel fulla ástæðu til að skoða með hvaða hætti þingið komi sem best að þeim verkefnum, bæði í stefnumótun og í eftirliti með þeim miklu fjármunum sem við nú verjum til þróunarmála og auknum fjármunum á komandi árum.

Varðandi sérstaka Evrópunefnd í þinginu, eða að utanríkismálanefnd og þingmannanefnd EFTA fengju aukið hlutverk á sviði Evrópumála, eins og kom fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, þá er full ástæða til að skoða með hvaða hætti hægt er að styrkja starf Alþingis að Evrópumálum. Einnig var spurt eftir hinum pólitíska starfshópi í öryggismálum. Allt er þetta til skoðunar. Kannski er vandi okkar í þessu sambandi sá að spurningin er: Hvar drögum við mörkin á milli Evrópustefnunefndar eða Evrópunefndar, sem hugmyndin er að sé pólitísk en utan Alþingis, og síðan þingnefndar Alþingis sem mun fjalla um Evrópumál? Hvar drögum við mörkin á milli pólitísks starfshóps í öryggismálum og síðan utanríkismálanefndar þingsins? Þetta er kannski vandinn sem við stöndum andspænis, það er að skoða samspil þingnefnda og nefnda utan þings sem eru að fjalla um svipuð málefni, Evrópumálið annars vegar og öryggismálin hins vegar. Ég á von á því að mjög fljótlega verði kynntar hugmyndir um pólitískan starfshóp í öryggismálum.

Ég var spurð um sprengjuleit og sprengjueyðingu. Ákveðin greiningarvinna hefur verið unnin í Keflavík á því sviði og það er hlutverk Landhelgisgæslunnar að annast leit og eyðingu á sprengjuleifum sem þar kunna að vera. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur líka það hlutverk að koma að hreinsun mengunar hverju nafni sem hún nefnist og nú stendur yfir ákveðin úttektarvinna á ástandi þessara mála á Suðurnesjum. En almennt er það verkefni Landhelgisgæslunnar að eyða sprengjuleifum.

Ég var líka spurð um flóttamenn af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, hvernig þau mál stæðu og hver stefnan væri þar. Það er áframhaldandi stefna að taka á móti hópum flóttamanna á grundvelli þess sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óskar eftir. Ég ræddi það sérstaklega þegar ég fór til Miðausturlanda með hvaða hætti við gætum komið að málum þar og það er sem sagt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna sem í þessum tilvikum metur hvað best sé að gera í þessum efnum. Hælisleitendur og meðferð þeirra mála heyra almennt undir dómsmálaráðuneytið en ekki utanríkisráðuneytið.

Ég hef vissulega verið spurð um margt fleira, virðulegur forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spurði hvað liði umfjöllun og viðræðum um Rockall-svæðið og Svalbarðasvæðið og hvort þar væri verið að semja. Því er til að svara að við erum í viðræðum um Rockall-svæðið við Íra, Breta og Dani fyrir hönd Færeyinga og þær eru á nokkuð erfiðu og viðkvæmu stigi en við erum að reyna að ná niðurstöðu í því máli. Hvað varðar Svalbarðasvæðið er búið að gera fiskveiðisamninga um Svalbarða sem gera það að verkum að við höldum að okkur höndum en förum ekki með málið í dómstólameðferð eins og lagt var upp með árið 2004, sem var fyrst og fremst vegna þess að Norðmenn neituðu að semja um fiskveiðiheimildir og tengdu þannig saman Svalbarðamálið og fiskveiðiauðlindir á svæðinu.

Þróunarmálin hafa komið til tals og á það var bent, bæði af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Siv Friðleifsdóttur, að við mættum ekki sækjast í hið menntaða fólk þróunarlandanna. Það má til sanns vegar færa að þar með séum við að draga kraftinn úr samfélögunum en það er hægar um að tala en í að komast því að þetta fólk eins og aðrir leitar að betri lífskjörum og aðstæðum í öðrum ríkjum.