Flutningsjöfnunarstyrkir

Miðvikudaginn 14. nóvember 2007, kl. 13:34:42 (1635)


135. löggjafarþing — 24. fundur,  14. nóv. 2007.

flutningsjöfnunarstyrkir.

136. mál
[13:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar prýðilegu spurningar og mér er ánægja að svara spurningum þingmannsins.

Í fyrra lagi er spurning um það hvort ég hyggist beita mér fyrir tímabundnum flutningsjöfnunarstyrkjum til annarra landshluta en Vestfjarða. Svarið við því er já. Ég tel að það sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu um að stefnt sé að framlagi til flutningsjöfnunar upp á 150 millj. tímabundið til Vestfjarða sé mjög jákvætt skref og vísir að frekari útfærslu á flutningsjöfnun til landsbyggðarinnar. Höfum við ákveðið, samgönguráðuneytið, viðskiptaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið, að setja niður þriggja manna starfshóp með einum frá hverju ráðuneyti til að útfæra frekar flutningsjöfnun til landsbyggðarinnar. Þetta er viðurkenning á þeim vanda sem flutningsjöfnun og flutningskostnaður á landsbyggðinni svo sannarlega er. Þessi tímabundna flutningsjöfnun til Vestfjarða er vísir að frekari flutningsjöfnunarstyrkjum til landsbyggðarinnar og mun hún líta dagsins ljós eftir því sem fram vindur.

Hinu má svo bæta við að auðvitað eru bættar samgöngur besta aðgerðin gegn háum flutningskostnaði. Flýtiframkvæmdir í samgöngumálum víða um landið, m.a. sem mótvægisaðgerðir út af þorskaflabresti eru jákvæðar að því leytinu að aldrei áður hefur eins miklum fjármunum verið ráðstafað til samgöngumála og núna, nýframkvæmda í samgöngumálum. Það er mjög jákvætt. Að sjálfsögðu eru bættar samgöngur besta varanlega lausnin til að taka á háum flutningskostnaði. En þangað til og meðan við byggjum upp það kerfi og til ystu Íslandsbyggða þarf að byggja upp flutningsjöfnunarkerfi að mínu mati og þess vegna er svarið afdráttarlaust já við því að hún verði útfærð frekar til annarra landshluta. Þess vegna höfum við sett niður þennan þriggja ráðuneyta starfshóp til að útfæra hana frekar.

Hvað síðari liðinn varðar, um flutningsjöfnunarsjóð olíuvara, er frá því að segja að í fjárlagafrumvarpi var lagt til að sá sjóður yrði lagður niður þar sem vægi hans hafði minnkað verulega. Um er að ræða 401 millj. kr. sem eru greiddar inn í sjóðinn af olíufélögunum, innbyrðis miðlun. Þetta hefur ekki með framlög úr ríkissjóði að gera en ég hef ákveðið að það mál gangi ekki fram. Það kom til athugunar að leggja sjóðinn niður og að þeirri athugun lokinni hef ég komist að þeirri niðurstöðu að við núverandi aðstæður sé ekki ástæða til að leggja sjóðinn niður. Heildstæð úttekt þarf að fara fram á því hvað það þýðir að leggja sjóðinn niður, hvaða áhrif það hefur. Þó að það hafi óveruleg áhrif á landslagið í heild sinni hefur það jafnvel töluverð áhrif á einhverjar byggðir. Það þarf að fara miklu betur í gegnum það og það hlutverk mun þessi starfshópur þessara þriggja ráðuneyta einnig fá, að meta áhrifin af afnámi sjóðsins ef af verður — það verður ekki núna — og með hvaða hætti er hægt að mæta því.

En til upplýsingar út af spurningu þingmannsins vil ég bæta því við til glöggvunar að á hvern lítra af seldu bensíni, t.d. á Þórshöfn, af því að þingmaðurinn spurði um það svæði, fá olíufélögin endurgreiddar 3,65 kr., þ.e. 2,84% af útsöluverði, og fyrir hvern lítra af dísilolíu 2,43 kr., þ.e. 1,9% af útsöluverði. Þetta eru þau áhrif sem sjóðurinn hefur. Það er erfitt að segja hvaða áhrif afnám flutningsjöfnunarsjóðs mundi hafa þar sem olíufélögunum er að sjálfsögðu frjálst að verðleggja bensín og olíu þrátt fyrir framangreinda flutningsjöfnun þannig að olíufélögin yrðu að gera grein fyrir því. Þá er að sjálfsögðu ýmislegt annað sem hefur áhrif til hækkunar.

Þetta þarf allt að meta og í því viðkvæma ástandi sem víða er á landsbyggðinni núna er fráleitt að gera nokkuð það sem frekar gæti veikt stöðu veikustu byggðanna. Heldur eigum við umfram allt að kappkosta að efla þær af fremsta megni, t.d. að útfæra frekar flutningsjöfnunarstyrki, hvort sem þeir eru tímabundnir út af samgönguframkvæmdum eða einhverju öðru, en fara í einhverjar aðgerðir sem kynnu að veikja þessa staði. Þess vegna höfum við samgönguráðherra, iðnaðarráðherra og ég sett niður þennan þriggja ráðuneyta hóp til að útfæra frekar flutningsjöfnunarstyrki og meta áhrif af niðurlagningu olíuflutningsjöfnunarsjóðsins og hvernig eigi þá að taka á móti ef af yrði einhvern tíma.