Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 16:15:26 (1757)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:15]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um sjúklingatryggingu, lögum um heilbrigðisþjónustu, lögum um málefni aldraðra og lögum um eftirlaun til aldraðra.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var samþykkt að vinna að einföldun og nútímavæðingu stjórnsýslunnar, aukinni notkun á upplýsingatækni til að bæta opinbera þjónustu, auka skilvirkni og einfalda samskipti milli almennings og stjórnvalda. Stefnan er að gera ríkisrekstur markvissari og með þetta að leiðarljósi hefur ríkisstjórnin tekið ákvörðun um breytingar á verkaskiptingu milli ráðuneyta með það fyrir augum að skipa skyldum málaflokkum undir eina stjórn. Var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt í þessu skyni á síðasta löggjafarþingi. Í tengslum við þá lagabreytingu voru boðaðar breytingar á verkaskiptingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis og nöfnum ráðuneytanna breytt til samræmis við fyrirhugaðan tilflutning verkefna.

Með frumvarpinu sem hér er lagt fram er stigið fyrsta skrefið í átt að því að skipa skyldum málaflokkum undir eina yfirstjórn. Í fyrsta lagi er lagt til að með breytingum á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um sjúklingatryggingu verði hlutverki Tryggingastofnunar ríkisins skipt upp og lífeyristryggingar almannatrygginga og félagsleg aðstoð ríkisins flytjist frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins. Slysa- og sjúkratryggingar almannatrygginga og sjúklingatrygging verði hins vegar áfram undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Lögð er áhersla á að þeir aðilar sem njóta þjónustu Tryggingastofnunar daglega muni ekki finna mikið fyrir breytingum á meðan þær standa yfir en þess að sjálfsögðu vænst að þegar til lengri tíma er litið muni allir njóta betri þjónustu.

Í öðru lagi er með þessu frumvarpi lagt til að með breytingum á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu verði yfirstjórn öldrunarmála færð frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Í þessu felst að yfirstjórn þjónustu við aldraða annarrar en heilbrigðisþjónustu færist til félagsmálaráðuneytisins frá 1. janúar 2008.

Virðulegi forseti. Ég vil nú gera nánari grein fyrir þeim meginbreytingum sem þetta frumvarp felur í sér og víkja fyrst að Tryggingastofnun ríkisins og þeim breytingum sem þar er gert ráð fyrir. Tilgangur þess að skipta upp verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins er tvíþættur. Hann snýr í fyrsta lagi að einföldun og nútímavæðingu stjórnsýslunnar, að því að auka skilvirkni og skilgreina betur hvernig stjórnvöld ætla að standa að framkvæmd flókinna verkefna. Hann snýr í öðru lagi að því hvernig stjórnvöld hyggjast bæta og einfalda samskipti milli notenda og stjórnvalda. Hér verður að huga að því að hagsmunum notenda er ekki alltaf best borgið með kerfi sem er einfalt í framkvæmd. Einföldun kerfa hættir til að gerast á kostnað einstaklingslegrar þjónustu en þegar velferðarþjónusta er veitt þarf að taka tillit til einstaklingsbundinna þarfa og aðstæðna notenda. Eitt er að skipuleggja hina tæknilegu innviði kerfisins, annað er að einfalda aðgengi notenda að kerfinu.

Það þarf einfalt viðmót að flóknu kerfi eins og Karl Steinar Guðnason, fráfarandi forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, komst að orði í nýlegu erindi. Að einfalda viðmót á flóknu kerfi er einmitt sú áskorun sem nútímavæðing stjórnsýslunnar fæst við. Hvarvetna innan opinberrar þjónustu er nú leitast við að mæta notendum með einstaklingsbundnum lausnum. Með því er átt við að mæta einstaklingnum þar sem hann er hverju sinni. Þessi stefna og stefna ríkisstjórnar, þ.e. að auka valfrelsi notenda, kallar á sveigjanlegar og fjölbreytilegar lausnir. Einföld útfærsla á framkvæmd slíkra lausna liggur ekki alltaf fyrir. Það sést best í heimi upplýsingatækninnar þar sem kerfin eru sífellt að verða notendavænni, en innviðirnir þ.e. vélbúnaðurinn og hugbúnaðurinn, eru að sama skapi flóknari. Í opinberri þjónustu á að leita markvissra leiða til að mæta margbreytilegum þörfum notenda. Það er með öðrum orðum skylda stjórnvalda að þróa innviði opinberrar þjónustu og nýta sér bestu fáanlegu þekkingu hverju sinni í leit að einföldu viðmóti á flóknum kerfum. Þetta er jafnvægislist sem er óvíða vandasamari en einmitt í heilbrigðis- og tryggingakerfi hins opinbera.

Þau skref sem hér eru stigin í átt til nútímavæðingar hinnar íslensku stjórnsýslu marka tímamót. Hér er verkþáttum Tryggingastofnunar ríkisins skipt upp og hlutverk skilgreind nánar. Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins í stjórnsýslunni hefur í meginatriðum verið tvenns konar. Í fyrsta lagi hefur stofnunin annast framkvæmd á þeirri stefnu stjórnvalda hverju sinni sem felur það í sér að bæta tekjutap eða tekjumissi sem landsmenn kunna að verða fyrir vegna aldurs, slysa og sjúkdóma. Þetta hefur stofnunin gert með framkvæmd lífeyristrygginga, þ.e. elli- og örorkulífeyris, tengdra bóta, styrkja og greiðslna. Þetta hlutverk fellur undir félagslegt öryggi almannatryggingakerfisins.

Í öðru lagi hefur stofnunin annast framkvæmd á þeirri stefnu stjórnvalda hverju sinni sem felur það í sér að veita aðstoð þegar landsmenn verða veikir eða slasast. Stofnunin hefur m.a. sinnt slysa- og sjúkratryggingum og fellur það hlutverk hennar undir sjúkratryggingar og slysatryggingar almannatryggingakerfisins. Tryggingastofnun ríkisins annast jafnframt framkvæmd sjúklingatryggingar en það er sérstakt verkefni sem stofnuninni hefur verið falið með sérlögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000.

Hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins hefur verið hvort tveggja í senn, að tryggja félagslegt öryggi og stuðla að heilbrigði landsmanna. Jafnræði og mannréttinda- og mannúðarsjónarmið eru þau grundvallargildi sem stefna í þessum málaflokkum byggir á. Allir þættir innan stjórnsýslunnar, þ.e. stefnumótun, framkvæmd og eftirlit, hafa hins vegar gert og gera reyndar í vaxandi mæli kröfur til mismunandi þekkingar innan hvers málaflokks. Stefnumótun í báðum málaflokkum þarf að byggja á forustu með skýra sýn. Kröfur og væntingar í nútímasamfélagi og þróun þekkingar hafa gert það að verkum að hvor málaflokkur um sig krefst tiltekinnar sérþekkingar. Einnig gera báðir málaflokkar hvor á sína vísu kröfu til sérhæfðs eftirlits, þ.e. eftirlits sem beinist að notendahópum sem eru í afar ólíkri stöðu gagnvart stofnuninni. Með því að skipta hlutverkum Tryggingastofnunar ríkisins upp geta stjórnvöld skipað hvorum málaflokki um sig undir eigin yfirstjórn. Slíkt gefur kost á að skilgreina betur markmið, hlutverk og verkefni hvers málaflokks, skýra tengsl þeirra við aðra málaflokka, svo sem skattkerfið og félagslega þjónustu. Þannig má gera stjórnsýslu þeirra gegnsærri og aðgengilegri fyrir notendur. Hvor málaflokkur um sig fær skýra pólitíska leiðsögn og sýn. Sérþekking eykst og ábyrgðar- og eftirlitskerfið verður einfaldara. Þannig má ná fram markvissari vinnubrögðum og auka skilvirkni um leið. Þess er gætt, eins og áður sagði, að tryggja einfalt viðmót á flóknu kerfi.

Virðulegi forseti. Markmiðið með þessari breytingu verkaskiptingar er tvíþætt: Annars vegar að leggja grunninn að skipulagi innan heilbrigðiskerfisins sem samhæfir það verklag sem þarf til að gera hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu skilvirkara gagnvart þeim sem þjónustuna veita. Það verður gert með því að starfrækja sérstaka stofnun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra sem hefur m.a. það hlutverk, eins og segir í 18. gr. frumvarpsins, að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu. Þar mun byggt á kostnaðargreiningu heilbrigðisþjónustunnar og mismunandi greiðslufyrirkomulagi beitt til að ná settu markmiði hverju sinni. Gert er ráð fyrir að heilbrigðisstofnanir fái fjármagn í auknum mæli í samræmi við fjölda verka og að fjármagn muni fylgja sjúklingum. Fyrirkomulag þetta kallast aðskilnaður kaupenda og seljenda innan heilbrigðisþjónustu. Það er þekkt í flestum vestrænum ríkjum og reyndar mjög útbreitt innan ríkja sem eru aðilar að OECD.

Þess má geta að í Svíþjóð hófu yfirvöld útfærslu á þessu fyrirkomulagi í byrjun síðasta áratugar. Útfærsla á fyrirkomulagi sem þessu er breytileg eftir ríkjum og ræður þar mestu mannfjöldi og hvort landsvæði, héruð eða sveitarfélög hafa eigin tekjustofna eða ekki. Vegna fámennis á Íslandi fer best á því að þessi þáttur heilbrigðiskerfisins verði á einni hendi og hjá þessari nýju stofnun sem starfa mun undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra. Í stofnuninni sameinast á einum stað öll sérþekking sem lýtur að kostnaði og kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu. Stofnunin mun fyrir hönd ríkisins annast kaup og greiðslur á heilbrigðisþjónustu og sjá um samninga um þjónustuna. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstöku frumvarpi sem lagt verður fram á vorþingi árið 2008. Stefnt er að því að stofnunin verði komin í fullan rekstur eigi síðar en 1. september 2008.

Hins vegar er markmið með umræddri breytingu á verkaskiptingu það að gera almannatryggingakerfið auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi og einfalda þannig þjónustu við almenning. Samspil skatta, bóta úr lífeyristryggingu, greiðslu úr lífeyrissjóðum og atvinnutekna einstaklinga verður skoðuð sérstaklega til að tryggja meiri sanngirni og hvetja til tekjuöflunar og sparnaðar. Vinna við þetta hefur þegar hafist í félagsmálaráðuneytinu og mun í upphafi næsta árs hafist handa við að hrinda breytingunum í framkvæmd.

Gert er ráð fyrir að Tryggingastofnun ríkisins færist undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og að stofnunin verði rekin með óbreyttu sniði eigi lengur en til 1. september 2008. Þá er gert ráð fyrir, eins og áður sagði, að lífeyristryggingar almannatrygginga og félagsleg aðstoð ríkisins muni til framtíðar verða undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðuneytisins en sjúkra- og slysatryggingar og sjúklingatrygging sem eru meðal núverandi verkefna Tryggingastofnunar verði áfram á forræði heilbrigðisráðuneytisins.

Að lokum er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd almannatrygginga muni færast undir félags- og tryggingamálaráðherra og allar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verði áfram kæranlegar til nefndarinnar, hvort sem þær varða lífeyristryggingar, félagslega aðstoð ríkisins, slys og sjúkratryggingar eða sjúklingatryggingu. Félags- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að leggja fram frumvarp á vorþingi 2008 þar sem nánar verður gerð grein fyrir hlutverki og skipulagi þeirrar stofnunar sem fara mun með þá málaflokka Tryggingastofnunar ríkisins sem til framtíðar munu falla undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Auk breytinga á verkaskiptingu ráðuneyta á sviði almannatrygginga er í frumvarpinu lagt til að yfirstjórn öldrunarmála færist frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti til félagsmálaráðuneytisins. Í þessu felst að þjónusta við aldraða, önnur en heilbrigðisþjónusta, færist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá 1. janúar 2008 en ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við aldraða verði hjá heilbrigðisráðuneyti líkt og gildir um heilbrigðisþjónustu við landsmenn almennt.

Samstarfsnefnd um málefni aldraðra sem fer með málefni aldraðra verður skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra í stað heilbrigðisráðherra. Nefndin gegnir viðamiklu hlutverki í stefnumótun í málefnum aldraðra samkvæmt lögum þar sem hún er ráðgefandi fyrir ráðherra og ríkisstjórn á þessum vettvangi. Hún skal jafnframt vera tengiliður milli ráðuneyta, stofnana og samtaka sem starfa að málefnum aldraðra. Enn fremur fer nefndin með stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og gerir tillögu til ráðherra um úthlutun úr honum. Samkvæmt frumvarpinu mun heilbrigðisráðherra tilnefna einn nefndarmann í samstarfsnefndina sem ég tel afar mikilvægt og sýna þann vilja sem er fyrir hendi um nána samvinnu ráðuneytanna þegar kemur að því að móta og skipuleggja áherslubreytingarnar.

Virðulegi forseti. Verði þetta frumvarp að lögum mun ábyrgð á uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma flytjast til félags- og tryggingamálaráðuneytisins þótt ábyrgð á allri heilbrigðisþjónustu í hjúkrunarrýmum, faglegri stjórnun og kostnaður vegna hennar verði hjá heilbrigðisráðuneytinu. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu getur heilbrigðisráðherra veitt stofnunum eða öðrum aðilum heimild til að veita heilbrigðisþjónustu sambærilega þeirri sem veitt er í hjúkrunarrýmum en ákvæði laga um málefni aldraðra, samanber einkum ákvæði um útgáfu framkvæmda- og rekstrarleyfa, skerða ekki umboð heilbrigðisráðherra til að semja um greiðsluþátttöku ríkisins í heilbrigðisþjónustu. Þetta fyrirkomulag birtir nýja sýn og nýjar áherslur þar sem hjúkrunarrými eru skilgreind upp á nýtt. Þannig er litið svo á að hjúkrunarrými sé ákveðið form búsetu fyrir þá sem þurfa á umfangsmeiri heilbrigðisþjónustu að halda en unnt er að veita inni á einkaheimilum fólks. Almennt mun gilda að ábyrgð á öðrum þáttum í rekstri hjúkrunarrýma en þeirra er lúta að heilbrigðisþjónustu verði hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hjúkrunarrými sem rekin eru sem hluti heilbrigðisstofnunar heilbrigðisráðuneytisins. Þar mun ábyrgð á þjónustu og rekstri alfarið á höndum þess ráðuneytis líkt og verið hefur.

Ég vil undirstrika að lög um heilbrigðisþjónustu veita heilbrigðisráðherra eftir sem áður víðtæka heimild til að semja um greiðsluþátttöku ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu, jafnvel vegna sambærilegrar þjónustu og veitt er í hjúkrunarrýmum. Með frumvarpi þessu, m.a. í ákvæði um útgáfu framkvæmda- og rekstrarleyfa, er ekki gert ráð fyrir að umboð heilbrigðisráðherra til slíkra samninga verði skert.

Ljóst er að nokkurn tíma mun taka að skilja á milli þess sem telst almenn þjónusta við aldraða og þess sem telst heilbrigðisþjónusta við aldraða. Því er gert ráð fyrir að ráðuneytið vinni að því að skilgreina þessa þætti nánar og móta hvernig samskiptum við öldrunarstofnanir og greiðslum til þeirra verði háttað í framtíðinni. Þess má vænta að lagt verði fram frumvarp um frekari breytingar á lögum um málefni aldraðra á vorþingi 2008.

Virðulegi forseti. Með þessari breytingu er lagður grunnur að grundvallarbreytingum á þjónustu við aldraða. Hér er á ferðinni breyting sem færir stjórnina nær nútímanum. Nútímavæðingin, eins og ég kýs að nefna þetta, þýðir í þessu samhengi að við skipulag og hönnun á þjónustu við aldraða er gert ráð fyrir að réttindi og skyldur fari saman og myndi þannig hornstein samstarfs hins opinbera, aldraða einstaklinga og fjölskyldna þeirra um að tryggja sjálfstæði og velferð í lífi hvers og eins. Nútímavæðing opinberrar þjónustu gerir enn fremur ráð fyrir að skýrt verði kveðið á um skiptingu ábyrgðar hverju sinni. Þannig er t.d. gerður skýr greinarmunur á fjármögnun þjónustunnar og framkvæmd hennar, þ.e. hver sé kaupandi, greiðandi og hver seljandi og hvenær, undir hvaða kringumstæðum, notandi skuli einnig vera með beinum hætti kaupandi eða greiðandi þjónustunnar. Jafnframt er fjallað um hvernig eftirliti með framkvæmd þjónustunnar skuli háttað. Hér munu sveitarfélög, hin nýja stofnun innan heilbrigðiskerfisins og einstaklingar sjálfir koma að greiðslu fyrir þjónustu eftir aðstæðum hvers og eins. Þetta fyrirkomulag gerir ráð fyrir að skerpa á því að dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra verði heimili og greiðsla fyrir dvöl og þjónustu endurspegli réttindi og skyldur íbúans eins og þegar hann bjó á eigin heimili áður en til flutnings á dvalar- og hjúkrunarheimili kom. Í langtímaumönnun felst þjónusta og umönnun úti í samfélaginu hvort heldur í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, þjónustuíbúðum eða vernduðum leiguíbúðum sveitarfélaga, svo og þjónusta og umönnun á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þjónusta við aldraða verði þannig samfelld og heildstæð hvar sem hún er veitt. Fjárhagsleg ábyrgð og greiðslufyrirkomulag þjónustu verða ekki til þess að rjúfa þá samfellu.

Virðulegi forseti. Ákvæði frumvarpsins fela í sér orðalagsbreytingar sem eru tilkomnar vegna þess að málaflokkar færast á milli ráðuneyta. Verður nú gefið yfirlit yfir helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.

Í I. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar. Þar er skilgreint í 2. gr. með skýrum hætti hvaða ráðherra fer með sjúkra- og slysatryggingar annars vegar og lífeyristryggingar hins vegar. Í ákvæði til bráðabirgða er hnykkt á því að Tryggingastofnun sjái áfram um framkvæmd ákveðinna mála í umboði heilbrigðisráðherra.

Í II. kafla er lögð til breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, í ljósi þess að lögin flytjast undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Í III. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu, til þess að samræma lagaákvæði breytingum á nafni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í heilbrigðisráðuneyti.

Í IV. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að sett verði á fót stofnun undir heilbrigðisráðuneyti sem hafi meðal annars það hlutverk að annast kaup, greiðslur og samninga um heilbrigðisþjónustu og sinni sjúkra- og slysatryggingum. Eins og fyrr sagði verður nánar kveðið á um skipulag og hlutverk þessarar stofnunar í sérstökum lögum sem lögð verða fyrir á vorþingi.

Í V. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra í samræmi við yfirfærslu málaflokksins til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og þá verkaskiptingu sem ákveðin hefur verið milli ráðuneytanna er varðar framkvæmd samninga og greiðslna til hjúkrunarheimila.

Í VI. kafla er lögð til breyting á lögum um eftirlaun til aldraðra vegna flutnings málaflokksins til félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Stjórnsýsla, stjórnun og skipulag öldrunarmála, sem og annarrar opinberrar þjónustu, þurfa að taka mið af þeim geysilegu umskiptum sem átt hafa sér stað í samfélaginu almennt og í stjórn og rekstri opinberra stofnana, sérstaklega í lok 20. aldarinnar. Með breytingunum er skilgreint hlutverk og ábyrgð opinberrar þjónustu í því ljósi. Fólk á öllum aldri, þekking, breytt viðhorf og væntingar þrýsta á að starfshættir hins opinbera endurspegli þekkingarsamfélagið í upphafi 21. aldarinnar en ekki reglur og venjur sem eiga rætur að rekja til upphafs síðustu aldar.

Virðulegi forseti. Ég tel að með þeim skrefum sem verið er að taka með þessu frumvarpi sé horft til framtíðar og að frumvarpið sé mikið framfaramál. Ég leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til heilbrigðisnefndar og til 2. umr.