Forvarnir og barátta gegn fíkniefnum

Miðvikudaginn 21. nóvember 2007, kl. 12:32:28 (1994)


135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

forvarnir og barátta gegn fíkniefnum.

[12:32]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið. Mér er nákvæmlega sama hvort liðurinn heitir um fundarstjórn forseta eða að bera af mér sakir. Ég hlýt að geta blandað mér í þá umræðu sem hér er hafin og það var auðvitað full ástæða til að gera athugasemdir við seinni ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Hann hefði betur sleppt henni og ekki mengað umræðuna, sem að öðru leyti var búin að vera málefnaleg um grafalvarlegt mál, með þessari aumkunarverðu málsvörn fyrir vandræði sjálfs sín í brennivínsmálinu og notað tímann í ræðustóli þegar aðrir áttu ekki lengur kost á því að svara fyrir sig — hann varð síðasti ræðumaður í 20 mínútna umræðu um störf þingsins — til að senda skeyti af þessu tagi, órökstudd og röng, í garð annarra. Það var feiknarlega lágt lagst, satt best að segja, hæstv. heilbrigðisráðherra.

Þeim áburði sem hæstv. ráðherra var með á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð er ósköp einfaldlega til að svara að við erum fylgjandi og höfum stutt aðhaldssama áfengisstefnu. Við teljum að þessi verslun sé best komin í höndum ríkisins og þannig sé hægt að hafa með henni eftirlit og framfylgja þeim markmiðum sem opinber áfengisstefna felur í sér, en að sjálfsögðu þarf þjónustan að þróast í takt við tímann. Við höfum jafnframt stutt að þetta sé þjónusta af því tagi að hún komi til móts við kröfur almennings. Það er engin mótsögn í þessu fólgin, enda augljóst mál að ef þjónustan væri þannig að fólk gæti engan veginn sætt sig við hana í hinum opinberu verslunum yrðu þær náttúrlega hrópaðar af. Það vill liðið sem vill koma brennivínssölu í hendur einkagróðaaflanna, þess vegna er því meinilla við að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins veiti sómasamlega, hvað þá góða, þjónustu. Það passar ekki inn í formúlurnar. Þess vegna ráðast þeir eðlilega á alla þá sem standa vörð um það að þetta opinbera fyrirtæki geti sinnt þessari starfsemi þannig að það samrýmist markmiðum samfélagsins í forvarna-, heilbrigðis- og hollustumálum en komi jafnframt til móts við eðlilegar og réttmætar kröfur um nútímalega þjónustu.

Svona eru málin vaxin, herra forseti, svo að ég svari hér og hnekki þar með þessum fráleita málflutningi hæstv. heilbrigðisráðherra sem hefði betur reynt að leggja eitthvað málefnalegt og uppbyggilegt inn til umræðunnar í staðinn fyrir að reyna að ljúka henni svona.