Reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála

Miðvikudaginn 21. nóvember 2007, kl. 13:36:11 (2020)


135. löggjafarþing — 29. fundur,  21. nóv. 2007.

reglur Evrópusambandsins á sviði orkumála.

201. mál
[13:36]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég hætti mér inn í þessar deilur á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Ég vil bæta því við að ég er eiginlega snortinn og mér er orða vant yfir hrósyrðum frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það hefur ekki gerst í háa herrans tíð að hann hafi borið mér lof með þessum hætti. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar segja það alveg skýrt að ég tel að til greina komi — ef það þjónar íslenskum hagsmunum, sem við erum ekki alveg fær um að skilgreina enn þá hverjir eru út frá breytingartillögunum, vegna þess að við vitum ekki hvernig þær líta út að lokum.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að á sínum tíma hefði verið hægt að sækja um undanþágu frá tilskipuninni þegar hún kom fram. Það hefðum við getað gert í krafti þess að við erum lítið og einangrað raforkukerfi. Eins og ég skildi það mál allt, og tók þó aldrei til máls um það hér í þinginu, hefðum við ekki getað sótt um undanþágu frá framleiðslukaflanum sjálfum. Það er hins vegar heldur ekki of seint að sækja um þá undanþágu ef við teljum að íslenskir hagsmunir bjóði það. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Þær tillögur sem þarna eru uppi, og hv. þingmaður gerði að umræðuefni, varða aðallega það að framkvæmdastjórnin hefur lagt til, eða það er hennar vilji, að fyrirtæki sem eiga bæði flutningskerfi og orkuframleiðslu verði skyldug til að selja hluta af sínum eignum. Það hugsa ég að fari svolítið undir hreistrið á hv. þingmanni. Hins vegar eru þar líka aðrir valkostir sem felast í því að flutningskerfið sé rekið af sjálfstæðu fyrirtæki eins og Landsnet er í dag og ekki fari fram sú uppskipting sem er nú boðuð með mestum þunga af framkvæmdastjórn.