Veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 14:01:54 (2153)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

veiðar Færeyinga innan íslensku fiskveiðilögsögunnar.

179. mál
[14:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram að í þessum þingsal eiga Færeyingar vinum að mæta. Hv. þingmaður spurði hvort við hefðum efni á því við núverandi aðstæður eða hvort það væri réttlætanlegt að Færeyingar fengju kvóta hér. Mitt svar er a.m.k. afdráttarlaust já. Ég byggi það á því að hvergi höfum við fengið eins mikinn stuðning á umliðnum árum þegar við höfum verið að gera ýmsa erfiða alþjóðlega samninga um sjávarútveg og fiskveiðar og hjá þeim. Það er Færeyingum að þakka að okkur tókst árum saman fyrir ákveðna hjálpsemi þeirra að veiða okkar síldarkvóta. Það voru ekki síst Færeyingar sem leiddu til þess að við fengum kvóta í makríl, þeir studdu okkur í því, og við erum að veiða núna tugi þúsunda tonna af makríl. Ég tel þess vegna að þeir hafi endurgoldið okkur alla vild sem við höfum sýnt þeim.

Ég hef áður lent í svona umræðu þegar skerðingin var 1992 eða 1993. Þá sat ég í ríkisstjórn og við ákváðum að skerða ekki kvóta Færeyinga, það á ekki að gera. Það eina sem á að gera varðandi kvóta þeirra er (Forseti hringir.) að ekki á að leyfa þeim að veiða lúðu, þeir hafa fengið sérstakan kvóta á það. Það er af því að hún er nánast komin í útrýmingarhættu.