Íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 14:27:18 (2169)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

íbúaþróun utan höfuðborgarsvæðisins.

214. mál
[14:27]
Hlusta

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mér þykir þetta orðin alveg afskaplega undarleg umræða og að hlusta á Framsóknarflokkinn æpa yfir því að ekkert hafi verið gert í byggðamálum eftir að hafa setið með byggðamálaráðuneytið (Gripið fram í.) árum saman er náttúrlega alveg með ólíkindum. Það er þannig að þessar mótvægisaðgerðir (Gripið fram í.) sem nú … Forseti, getur þú tryggt að ég geti fengið að tala hérna.

(Forseti (MS): Forseti ítrekar óskir sínar til þingmanna að hafa hljóð meðan ræðumaður …)

Það er verið að fara í stórkostlegar mótvægisaðgerðir. Þetta er algert nýmæli. Þetta hefur ekki verið gert áður (Gripið fram í.) og ég vil að það komi fram sérstaklega og þess vegna er ánægjulegt að lesa upp úr stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar — en það kom reyndar til áður en skerðingin varð á þorskveiðikvótanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Úrbætur í samgöngum eru lykilatriði til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og lækka flutningskostnað. Styttri vegalengdir milli byggðarkjarna og öruggari vegir skapa möguleika á stærri og lífvænlegri atvinnu- og búsetusvæðum. Ráðist verði í stórátak í samgöngumálum og aukin áhersla lögð á umferðaröryggi og almenningssamgöngur.“