Framleiðslu- og flutningsgeta í raforkukerfinu

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007, kl. 14:45:19 (2177)


135. löggjafarþing — 32. fundur,  28. nóv. 2007.

framleiðslu- og flutningsgeta í raforkukerfinu.

218. mál
[14:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ólöf Nordal) (S):

Herra forseti. Ég held áfram að spyrja um hina ýmsu þætti í raforkukerfinu. Þessi fyrirspurn, um framleiðslu- og flutningsgetu kerfisins, er nátengd þeirri fyrri á þskj. 235.

Eins og ég kom inn á áðan er markmið raforkulaganna að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi, efla atvinnulíf og byggð í landinu og gæta þess að menn hafi sem jafnastan rétt á afhendingu rafmagns.

Fljótsdalsstöð hefur verið tekin í gagnið og á föstudag verður vígsluhátíð stöðvarinnar. Þar með lýkur viðamiklum framkvæmdum sem svo sannarlega hafa haft mikil áhrif á allt mannlíf á Austurlandi. Með því að Fljótsdalsstöð bætist við í safn virkjana á Íslandi koma ein 690 megavött af uppsettu afli í raforkukerfið. Það er ljóst að hún mun skipta miklu máli í því að auka heildarafl kerfisins fyrir utan það hversu mikla raforku hún framleiðir, þ.e. þetta mikla afl sem til viðbótar kemur jafnast á við tvöfalt afl Búrfellsvirkjunar, svo við tökum hana sem dæmi, og rúmlega það.

Mér skilst að strax í upphafi muni hægt að framleiða meira rafmagn úr Fljótsdalsstöð en í fyrstunni var talið, ekki síst vegna þess sem fram kom áðan, að meira vatn kemur til virkjunarinnar en menn gerðu ráð fyrir. Auðvitað fer lunginn af framleiðslunni til álvers Alcoa, Fjarðaáls á Reyðarfirði. Við hljótum samt að spyrja hversu miklu máli stöðin muni skipta fyrir heildarframleiðslu í landinu og jafnframt hvort hún muni hafa áhrif á hugsanlega uppbyggingu á Norðausturlandi.

Flutningstakmarkanir á byggðalínu eru þekktar víða um land, t.d. hefur stundum þótt nauðsynlegt að skerða ótryggða orku til notenda á Austfjörðum. Nú er staðan hins vegar sú að framleiðslan gengur svo vel á Austurlandi að það er líklegra, vegna flutningstakmarkana frá Fljótsdalsstöð yfir á Sultartanga, að skerða þurfi ótryggða orku á Suðvesturlandi. Þannig er þetta fljótt að breytast í raforkukerfinu.

Af því leiðir að verulegar líkur eru til að erfitt verði að flytja mikla umframorku um þessar línur. En hversu erfitt er það? Hvað fáum við út úr Fljótsdalsstöð til viðbótar því sem við þegar bjuggumst við? Af því tilefni vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra tveggja spurninga:

1. Hver er núverandi framleiðslugeta í raforkukerfinu miðað við að Fljótsdalsstöð sé í fullum rekstri, í gígavattstundum?

2. Hver er flutningsgetan og hversu mikil orka er til aflögu á tengipunktum á Norðausturlandi?