Fátækt barna á Íslandi

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 14:45:37 (2672)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:45]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að halda við umræðunni um fátækt barna á Íslandi og ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni að 7.500 börn undir fátæktarmörkum hér á landi eru 7.500 börnum of mikið. Í þessu ríka landi eigum við ekki að þurfa að tala um að fátækt bitni á börnum. Mér þykir miður, og þess vegna bið ég um að gera stutta athugasemd, að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa sagt að börn væru ekki áhættuhópur í þessum efnum. Ég vil minna á að fátækt hefur mjög alvarleg áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan barna, veldur þeim auknum sjúkdómum, bæði andlegum og líkamlegum, hefur áhrif á námsárangur, veldur því að þau lenda fremur í útistöðum, bæði við félaga sína, jafnaldra og síðar við yfirvöld og það er miður að við skulum ekki sjá annað en einhverjar boðaðar aðgerðir, (Forseti hringir.) engar raunverulegar aðgerðir hjá ríkisstjórninni.