Mannvirki á Straumnesfjalli og Darra

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 15:15:27 (2686)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

mannvirki á Straumnesfjalli og Darra.

245. mál
[15:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Aðrar ratsjárstöðvar voru reistar á fyrri tíð á undan þeim sem nú eru starfandi hér á landi. Í síðari heimsstyrjöldinni reistu Bretar ratsjárstöð á fjallinu Darra sem snýr að Ísafjarðardjúpi. Síðan reistu Bandaríkjamenn aðra stöð á fjallinu Straumnesi eða Straumnesfjalli sem er norðan megin í Aðalvíkinni. Þessi mannvirki voru ekki lengi í notkun og hafa grotnað niður með tímanum. Engu að síður eru eftir minjar frá þessum tíma. Á fjallinu Darra eru enn þá eftir slitrur af braut sem lögð var frá Sæbóli í Aðalvík upp á fjallið, teinar sem notaðir voru til að flytja varning og annað upp á fjallið og niður af því.

Uppi á fjallinu eru leifar á stöðinni, grunnur hennar, og byssustæði eða leifar af þeim. Meiri mannvirki eru hins vegar á Straumnesfjalli. Þar er vegur enn nokkuð heillegur sem lagður var upp á fjallið frá Látrum í Aðalvík. Enn eru mjög mikil mannvirki uppi á fjallinu, hús sem byggð voru á sínum tíma, bæði stöðvarhús og íbúðarhús sem ekkert hefur verið hugsað um eða haldið við í áratugi eins og gefur að skilja. En mér finnst að eigendurnir, sem hljóta að vera íslenska ríkið í þessu tilviki, verði að gera upp við hvað þeir hyggjast fyrir með þessi mannvirki.

Ein leiðin væri að fjarlægja þau, rífa og fjarlægja þau ummerki sem eru þarna núna. Önnur leið væri hins vegar að láta þau standa, taka ákvörðun um það og verja einhverju fé til að halda þeim þó þannig að þau séu ekki hættuleg fólki sem fer þar um. Að halda við þessum mannvirkjum að einhverju leyti kann að hafa gildi í sjálfu sér. Ég verð var við að ferðamenn hafa nokkurn áhuga á að fara á þessi fjöll og skoða bæði aðstæðurnar og mannvirkin sem þarna eru. Ef til vill er áhugavert að halda mannvirkjunum við að einhverju leyti í því skyni. Ég hef því leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn, virðulegi forseti, til utanríkisráðherra sem er svohljóðandi:

Hefur verið tekin ákvörðun um hvort vegur og mannvirki á Straumnesfjalli og byggingar á Darra verði varðveittar eða rifnar?