Móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 18:30:01 (2712)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

móttaka og vernd flóttafólks og hælisleitenda.

200. mál
[18:30]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið hafa frá 1. janúar 1999 og til 15. október 2007 um 540 manns sótt um hæli sem flóttamenn á Íslandi. Aðeins einn hefur fengið hæli sem flóttamaður en 31 fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Ég lít svo á að hér sé ekki mikill fjöldi á ferðinni en ætla samt sem áður ekki að gera lítið úr öðrum sem hæstv. ráðherra nefndi.

Mér finnst líka mikilvægt að hann upplýsti að ráðuneytið muni eiga fulltrúa á fundinum sem hann nefndi í Stokkhólmi sem væntanlega verður 19. desember, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Þar verður m.a. farið yfir þetta átak sem núna er í gangi.

Hins vegar hefur sú regla verið viðhöfð hér á landi að einstaklingar sem sækja um hæli þurfi sjálfir að sýna fram á hættu í heimalandi sínu og nægi ekki að það sé almennt vitað að þeir tilheyri hópi sem býr við þær aðstæður að geta orðið fyrir ofbeldi. Það er t.d. reglan sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að eigi að vera í gildi. Það er sú regla sem t.d. er viðhöfð í Bandaríkjunum og Kanada. En samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið er það ekki svo, hvorki hér á landi né á öðrum Norðurlöndum.

Mér finnst fróðlegt að vita hvort hæstv. dómsmálaráðherra mundi vilja beita sér fyrir stefnubreytingu hvað þetta atriði varðar og spyrja í leiðinni hvort það sé hugsanlega sérstök stefna íslenskra stjórnvalda að reyna að draga sem mest úr fjölda flóttamanna eða þeirra sem fá hæli hér á landi sem flóttamenn?