Viðskipti með aflamark og aflahlutdeild

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 20:28:22 (2758)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

viðskipti með aflamark og aflahlutdeild.

213. mál
[20:28]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr mig spurninga varðandi viðskipti með aflamark og aflahlutdeild. Hvort ég telji tímabært að sett verði almenn löggjöf um viðskipti með aflamark og aflahlutdeild þar sem meðal annars verði kveðið á um hlut ríkissjóðs úr þeim viðskiptum og ef svo er, hvenær?

Um þetta vil ég segja almennt. Skattaleg meðferð þessa sem hv. þingmaður spyr mig um í reikningsskilum er sú sama og hvað varðar önnur viðskipti á milli tveggja aðila. Sá sem leigir tekjufærir leiguna í reikningsskilum sínum og borgar þannig venjulegan tekjuskatt vegna þeirra. Sá sem leigir til sín aflaheimildir gjaldfærir hins vegar leiguna á móti þeim tekjum sem hann hefur af veiðum og vinnslu aflans.

Mjög umdeilanlegt er að gera breytingar sem mundu takmarka heimildir til gjaldfærslu hjá þeim sem leigir til sín. Sá sem leigir frá sér borgar þegar fullan tekjuskatt. Nú þegar eru í tekjuskattslögum takmarkanir varðandi skattalega meðferð á sölu varanlegra aflaheimilda. Samkvæmt 48. gr. laganna er ekki hægt að fyrna stofnkostnað við kaup á slíkum réttindum og þess vegna er ekki hægt að færa kostnaðinn á móti tekjum sem myndast af eigninni. Ákvæði um skattlagningu hagnaðar af slíkum viðskiptum eru í 5. og 6. mgr. 15. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um að heimilt sé að færa niður stofnverð heimilda sem eru keyptar á tekjuárinu eða síðustu 12 mánuðum um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Þá er hægt að fresta skattlagningu um tvenn áramót enda kaupi skattaðili varanlegar aflaheimildir á tímabilinu. Annars tekjufærist söluhagnaðurinn með 10% álagi. Það er ekki hægt að færa niður stofnverð annarra eigna sem keyptar eru á móti skattskyldum söluhagnaði, svo sem skip, fasteignir eða þess háttar.

Í mörgum tilvikum eru verðmæti sem felast í aflaheimildum hluti af eignum félaga þegar hlutafé þeirra er selt, t.d. þegar skattaðili er að hætta rekstri eða hverfa úr greininni. Í þessum tilvikum er skattlagning með sama hætti og venjulega, þ.e. það er greiddur 10% fjármagnstekjuskattur ef um einstakling er að ræða. Ef um félög er að ræða þá eru sömu frestunarheimildir og venjulega.

Í rauninni er fyrirspurn hv. þingmanns tvískipt. Annars vegar er það sem lýtur að hinni almennu fiskveiðistjórnarlöggjöf og hins vegar það sem ég tel að sé kjarni málsins, og felur í sér spurningu um skattalega meðferð við kaup og sölu aflaheimilda eða aflahlutdeildar, þ.e. hvort ríkissjóður eigi að fá einhverja sérstaka hlutdeild við sölu á kvóta.

Spurningin er því í rauninni þessi: Er ástæða til grundvallarbreytinga á skattalegri meðferð við kaup á sölu aflaheimilda eða aflahlutdeildar? Að mínu mati er ekki ástæða til mikilla breytinga þar sem ríkissjóður fær tekjuskatt nú þegar af tekjuskattsskyldum hagnaði við sölu aflamarks og aflahlutdeildar á sambærilegan hátt og af sölu annarra eigna. Nú þegar eru takmarkanir varðandi afskriftir af keyptum heimildum eins og ég hef þegar rakið.

Ef aflahlutdeild er seld með skattalegum söluhagnaði, er hægt að fresta söluhagnaði og færa á móti keyptum aflaheimildum og ef viðkomandi getur það þá er ekki um að ræða nettósölu heldur nokkurs konar tilfærslu milli fisktegunda eða einhverja slíka hagræðingu. Þetta er í samræmi við skattalögin að öðru leyti og þess vegna eðlileg skattaleg meðferð og svipuð og gildir um aðrar eignir, t.d. fasteignir.

Það væri því mjög umdeilanlegt, svo ekki sé meira sagt, að refsa aðilum sem fjárfest hafa í kvóta með því að skattleggja söluhagnað þeirra sérstaklega og hærra en varðandi söluhagnað annarra eigna.