Aðgreining kynjanna við fæðingu

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 21:29:25 (2779)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

aðgreining kynjanna við fæðingu.

284. mál
[21:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ef ég mætti færa inn í umræðuna örlítið úr reynslusjóði mínum sem gamals lífeðlisfræðings yrði ég glaður. Það er ákaflega vel þekkt í dýraríkinu og líka á meðal manna, og hefur verið sýnt fram á það með rannsóknum, að mismunandi litir höfða með ólíkum hætti til kynjanna. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. fyrirspyrjanda hvort þau hafi leitað á náðir vísindanna til að skoða rannsóknir á því sviði hvað varðar lítil börn. Ég held að slíkar rannsóknir hafi verið gerðar.

Ef ég mætti líka greina frá reynslu minni sem föður tveggja stúlkna þá minnist ég þess þegar þær voru bráðungar að a.m.k. önnur þeirra laðaðist miklu meira að þeim lit sem hér er til umræðu en t.d. að bláu. Sú held ég að sé nú reynsla margra foreldra.

Mig langar líka að spyrja hv. fyrirspyrjanda: Hafa femínistar ekki gert bleikan lit að sínum einkennislit og m.a. haldið upp á afmælisdaginn minn, 19. júní, með því að væða ýmsar stofnanir og (Forseti hringir.) borgina alla þeim lit, mér til mikillar ánægju, herra forseti?