Almannatryggingar o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2007, kl. 14:00:43 (3004)


135. löggjafarþing — 41. fundur,  11. des. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[14:00]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (frh.):

Ég stíg nú í ræðustól endurnærð eftir klukkutíma hádegishlé. Þar var komið máli mínu, herra forseti, að ég tel nauðsynlegt að vekja athygli þingheims á því að það er ekki sama heilsugæslustöð og heilsugæslustöð á þessu víðfeðma, nær 200.000 manna þjónustusvæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna þess að þjónustubyrðin er afskaplega misjöfn.

Það er tvennt sem ræður. Annars vegar er það auðvitað sá fjöldi íbúa sem er að baki hverri heilsugæslustöð og hins vegar er það íbúasamsetningin. Þjónustuþörfin, ef við tölum bara um tímalengd hvers viðtals sem viðkomandi íbúi þarf að nota eða læknir þarf að nota, fer verulega mikið eftir aldri.

Af því að hér hefur töluvert verið rætt um hversu mikil gósentíð sé fram undan með einkarekstri, sérstaklega í heilsugæslunni, þá hafa hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins vísað mjög til Salastöðvarinnar í Kópavogi sem er tiltölulega ný stöð, mjög vel búin og mjög góð. Stöðin sinnir hlutverki sínu að sjálfsögðu af kostgæfni, hefur á góðu starfsfólki að skipa og ánægja með þjónustu Salastöðvarinnar er síst minni en með þjónustu annarra heilsugæslustöðva.

Ég tel nauðsynlegt að vekja athygli á því að á Salasvæðinu hefur íbúafjölgun orðið allmikil á undangengnum tveimur árum. Frá árinu 2005–2007 hefur íbúafjölgun þar orðið ein 13% eða tæplega þúsund manns. Íbúafjöldi að baki Salastöðvarinnar er núna ríflega 8.000 manns sem er meira en tvöfalt minna en er í stærstu stöðinni sem er í Grafarvogi og er með ríflega 18.000 íbúa á sínu svæði.

Það sem meira er, þegar menn skoða þessar stöðvar og bera þjónustu þeirra saman, eins og hv. formaður heilbrigðisnefndar hefur ítrekað gert, þá verður að taka til athugunar að þjónustuþörf hvers svæðis fer auðvitað eftir mannfjölda eins og ég nefndi, aldursskiptingu og öðrum þeim hlutum sem áhrif hafa á þarfir hvers einstaklings. Þar á meðal má nefna fjölda útlendinga á svæðinu en þjónusta við þá krefst oft lengri viðtala og aðstoðar túlks en ekki síður þá hafa félagslegar aðstæður íbúa á hverju svæði mjög mikil áhrif. Allt hefur þetta áhrif á kostnaðinn.

Í því sambandi, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að þegar horft er á 75 ára og eldri, hlutfall 75 ára og eldri, þá er þjónustuþörfinni á hverri heilsugæslustöð verulega misskipt. Af því að Salastöðin hefur ítrekað verið nefnd sem dæmi um skilvirkni, hv. formaður heilbrigðisnefndar hefur nefnt það sérstaklega að þar taki viðtöl við sjúklinga eða íbúa miklu skemmri tíma, vinnukerfið þar sé afkastahvetjandi, þá vil ég vekja athygli þingheims á því að einungis, ríflega 2% af íbúum, þeim 8.000 íbúum sem eru að baki Salastöðvarinnar í Kópavogi, eru 75 ára eða eldri.

Á hinn bóginn er aldursskiptingin þyngst á svæði heilsugæslustöðvanna í Glæsibæ, þar sem hún er ríflega 13%, og í Efstaleiti og Lágmúla, en léttust er hún í Salahverfi og í Grafarvogi þar sem stærsta stöðin er, en einnig í Mosfellsumdæmi. Það vekur líka athygli í yfirliti heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hversu misjafnt hlutfall útlendinga er af íbúafjöldanum sem er á hverri heilsugæslustöð. Í miðbænum er hlutfallið sýnu hæst, 23% á miðju árinu 2007. Í þessar tölur yfir fjölda útlendinga vantar hins vegar upplýsingar frá Salastöðinni og frá stöðinni í Lágmúla. Þetta eru þessar einkareknu stöðvar sem því miður hafa ekki verið í fullri samvinnu m.a. um upplýsingar og þátttöku í þjónustukönnunum eins og þessari sem hér er.

Ég vil, herra forseti, ljúka máli mínu með því að ítreka þær spurningar sem ég hef lagt fram til talsmanna annars ríkisstjórnarflokksins, Samfylkingarinnar, í ljósi þess að menn frá þeim flokki hafa ekki talið sig eiga erindi í ræðustól þótt umræðan hafi staðið um alllangan tíma. Ég spyr sérstaklega um afstöðu Samfylkingarinnar til 18. gr. sem við höfum lagt til, allmargir ræðumenn, að verði tekin út úr þessu frumvarpi með þeirri röksemd að þar sé um smyglgóss að ræða sem á ekki erindi í þetta frumvarp og er því ótengt með öllu. Ég spyr líka um afstöðu þeirra til tillagna um niðurskurð í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hvernig eigi að fara með hana.

Loks spyr ég í ljósi 18. gr. ef menn ekki fallast á að kippa henni til hliðar og geyma hana þangað til fram verður borið frumvarp um þá stofnun sem þar um ræðir í þeirri grein: Hvernig stendur þá á því að fulltrúar Samfylkingarinnar hafa ekki tekið þátt í umræðum sem hér hafa farið fram um einkarekstur versus félagslegan rekstur, eða norrænt kerfi versus amerískt kerfi í heilbrigðisþjónustunni?