Þingsköp Alþingis

Fimmtudaginn 13. desember 2007, kl. 23:30:06 (3356)


135. löggjafarþing — 44. fundur,  13. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það ekki samboðið hv. þingmanni að vera að ýja að hlutum eða næstum að vera með dylgjur í okkar garð af því tagi sem hér voru uppi áðan vegna þess að hv. þingmaður veit að við byrjuðum strax í haust að gera grein fyrir því, og gera forseta viðvart um það, hvert við værum tilbúin til að reyna að teygja okkur í þessum efnum án þess að setja nokkurn tíma fram neina úrslitakosti í því. Það er einfaldlega rangt, það er ekki rétt með farið af hv. þingmanni, annaðhvort vegna þess að hann veit ekki betur eða kýs að haga máli sínu með þessum hætti, að halda því fram að það sé nýtilkomið að við höfum boðið upp á að reyna að leita sátta og málamiðlana í þessu máli. Það höfum við gert frá byrjun.

Það er hins vegar rétt að við höfum haft umtalsverða sérstöðu í því að við höfum viljað standa fastar vörð um það sem við teljum vera mikilvægan hluta af réttindum þingmanna og minni hluta og stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Ég segi það bara aftur sem ég sagði í morgun, að við upplifum okkur í þessari stöðu þannig að við séum hér, því miður ein, að reyna að standa vörð um réttindi og vígstöðu stjórnarandstöðu að þessu leyti. Og það er gríðarlega mikilvægt að einhver geri það því að ekki er það í þágu lýðræðisins að allir gefist upp í þeim efnum og velji bara þægindin.