Tekjuskattur

Föstudaginn 14. desember 2007, kl. 16:34:12 (3451)


135. löggjafarþing — 45. fundur,  14. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[16:34]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, en það er að finna á þskj. 509.

Á þingskjalinu kemur fram hvaða gestir heimsóttu nefndina. Þar er einnig rætt um það að í frumvarpinu sé lagt til að fjárhæðir vegna sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta hækki í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008 en þar er gert ráð fyrir hækkun vísitölu um 4,8%.

Í nefndarálitinu er einnig getið um upphafsákvæði frumvarpsins, að ríkisskattstjóra verði falið að úrskurða um heimilisfesti lögaðila og bent á hversu mikilvægt og afdrifaríkt slíkt ákvæði er.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Undir nefndarálitið skrifa hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson, Gunnar Svavarsson, Lúðvík Bergvinsson og Ólöf Nordal en hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.