Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 5. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 5  —  5. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukinn þorskafla á fiskveiðiárinu 2007–2008.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson,


Kristinn H. Gunnarsson, Jón Magnússon.



    Alþingi ályktar að leyfilegur þorskafli fiskveiðiársins 2007–2008 verði aukinn um 40.000 tonn og að heildarafli þorsks verði alls 170.000 tonn á yfirstandandi fiskveiðiári. Úthlutað aflamark þorsks og þorskaflamark krókabáta verði hækkað sem nemur hlutdeild þeirra í 40.000 tonna viðbót þess leyfða þorskafla sem úthlutað var til fiskiskipa í lok ágúst sl.

Greinargerð.


    Ástæður þess að þingmenn Frjálslynda flokksins leggja til að þorskaflinn á fiskveiðiárinu 2007–2008, 1. september 2007 til 31. ágúst 2008, verði aukinn eru margar. Verða þær helstu raktar hér í stuttu máli en nánar gerð grein fyrir þeim við umræðu málsins á Alþingi þegar málið kemst þar á dagskrá. Vonandi verður það sem fyrst í október svo að málið berist m.a. til hagsmunasamtaka fyrir aðalfundi þeirra nú í haust og þau geti kynnt sér þau rök og umræður sem fram koma við fyrstu umræðu málsins. Það er mikil nauðsyn nú að ræða rök og tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar (Hafró) ofan í kjölinn enda um vafasaman málstað að ræða.
    Flutningsmenn telja að margt bendi til þess að uppvaxandi árgangar ungþorsks séu á Íslandsmiðum í meira mæli en gert er ráð fyrir í gögnum Hafró.

Fjöldi skyndilokana.
    Á þessu ári hefur verið mikið um lokanir veiðisvæða vegna uppvaxandi þorsks sem er undir 55 sm að stærð, þ.e. tveggja, þriggja og fjögurra ára þorsks, og ekki er ólíklegt að skyndilokanir vegna ungþorsks geti orðið með mesta móti á þessu ári. Meðaltal skyndilokana vegna þorsks sl. tíu ár er um 60 lokanir ár hvert en árin 2000, 2001 og 2002 skera sig þar úr með 77–97 lokanir hvert ár. Viðmiðunarárgangar þeirra ára voru 1997–2000, metnir um 170 milljónir þorska sem þriggja ára nýliðar inn í þorskstofninn, og hafa verið áberandi í þorskveiðinni sl. ár. En stóra spurningin er hvernig það megi vera að lokanir árið 2006 hafi verið 86 vegna þorsks í uppvexti og stefna nú í 80–90 á árinu 2007, bæði árin langt yfir meðaltali, ef svo lítið er af uppvaxandi ungþorski eins og sagt er frá í skýrslu Hafró frá sl. vori. (Sjá Nytjastofnar sjávar 2006–2007, aflahorfur fiskveiðiárið 2007–2008, fjölrit nr. 129, bls. 22 – Nýliðun.)
    Sé litið til fjölda skyndilokana 2006 og 2007 vegna uppvaxandi þorsks fær þessi svartsýnisspá ekki staðist. Skipstjórar fiskiskipa orða þetta þannig með mjög einföldum hætti að það sé ekki hægt að loka á þorsk sem ekki er til í sjónum, enda er það þeirra reynsla á þessu sumri að mikið af ungþorski sé víða á grunnslóð við landið, einkum norðvestan-, norðan- og austanlands. Sandsílið lifnaði seint í sumar sem leið en sást mikið síðsumars. Vonandi verður áfram hlýr sjór svo að smáþorskur leiti ekki út af grunnum niður á dýpri sjó. Gangi smáþorskur dýpra verður afar snúið að stunda veiðar á stærri þorski vegna þess að miðað við fjölda skyndilokana og lítils þorskkvóta yrði brottkast mjög mikið á bæði línu- og togveiðum blandist smáþorskur niður á dýpri sjó þar sem veiðar beinast þó oftast að stærri fiski.
    Í ljósi sóknarvilja skipstjóra eingöngu í stærsta fiskinn má undrast allar skyndilokanirnar sem af er þessu ári. Af því má einnig draga þá rökréttu ályktun að uppvaxandi árgangar séu alls ekki líkt því eins slakir og Hafró telur þá vera. Mesti ávinningur okkar nú felst í vexti og viðgangi loðnu og að sandsílið nái sér á strik nú síðsumars. Það tvennt ætti að öðru jöfnu að verða til mikils vaxtarauka þorsksins.
    Stjórnvöld þurfa að endurmeta veiðar á loðnu og stýra þeim upp á nýtt með það að leiðarljósi að efla vöxt þorsksins sem þarf aukið æti til vaxtar ef sjávarhiti er hár við landið.

Þorskur við Austur-Grænland.
    Nú er orðið ljóst að haustið 2002 fór mikið af ungþorski frá djúpköntum Vestfjarðamiða yfir til ætis- og uppeldisslóðar við Austur-Grænland. Aukið innstreymi hlýsjávar við Vesturland og inn á Vestfjarðarmið sl. ár og síðan ríkjandi suðaustan- og austanátt haustið 2002 gerðu það að verkum að skil hlýsjávar og kaldsjávar færðust mjög langt til norðvesturs og inn á grænlenska landgrunnið um nokkurra vikna tímabil. Ungþorskurinn (þriggja til fimm ára) færðist að sjálfsögðu með, kominn á góða ætisslóð við Austur-Grænland, og var ferðin ljúf með straumi inn á hefðbundnar þorskslóðir vestan Dhornbanka við Jónsmiðahrygg og Kap Mösting-grunn. Hafrómenn þurfa því ekki að setja upp undrunarsvip þótt við Austur- Grænland veiðist nú átta til tíu ára þorskur. Þorskur hefur alla tíð synt á milli þessara miða þegar ætisskilyrði og straumar hafa boðið upp á þá sundferð. Því ferðalagi stjórnar náttúran eins og göngum til hrygningar og ætisgöngum aftur á ætisslóðir eins og skipstjórar fiskiskipa urðu svo áþreifanlega varir við í sundinu milli Látragrunns, Víkuráls og Dhornbanka, svonefndri grálúðuslóð í júní sl. Á þessar göngur þorsksins höfum við engin áhrif en það er að sjálfsögðu gott fyrir viðgang þorsksins að hafa fengið stærri beitarsvæði, alveg eins og það var gott fyrir ýsustofninn við Ísland að hlýsjór norðanlands opnaði þá uppeldisslóð fyrir uppvaxandi ýsustofna. Það kom reyndar Hafró á óvart því að á sama tíma og Hafró krafðist kvóta á ýsu og lagði til lítinn afla þá stækkaði ýsustofninn sem aldrei fyrr. Skipti þá engu þó að veitt væri 20–25% umfram ráðgjöf Hafró árum saman. Hafró gat ekki spáð fyrir um vöxt ýsustofnsins fyrr en hann var orðinn staðreynd og sást í stórum árgöngum sem komu fram og urðu sýnilegir sem ungfiskar í veiði.
    Grænlandsþorskurinn nú er viðbót í þorskstofninn og örugglega mun eitthvað af honum ganga tímabundið á Íslandsmið á komandi árum, annaðhvort í ætisleit ef skilyrði og straumar breytast eða þá til hrygningar nema hvort tveggja verði, samfara vesturgöngu loðnu og suðurgöngu kolmunna undan kaldari sjó.

Sláturstærð þorska.
    Það hefur gerst áður að þorskur tapi þunga milli ára og reyndar er það svo að kvótakerfið var sett á vegna hræðslu Hafró árið 1983 um slakan viðgang þorsksins. Það haust kom í fyrsta sinn tillaga um það að veiða aðeins 200.000 tonn af þorski árið eftir (1984), sem varð svo fyrsta kvótaárið.
    Halldór Ásgrímsson flutti ræðu 2. nóvember 1983 á 31. þingi FFSÍ og sagði þar frá tillögu Hafró um 200.000 tonna þorskafla og hruni í vexti þorsksins þar sem fallþungi 7 ára þorsks lækkaði úr 5,86 kg í 4,01 kg á milli áranna 1979 og 1983. Þorskur sem landað var vó alls 290.000 tonn en hefði verið 90.000 tonnum þyngri eða 380.000 tonn ef vöxtur og fallþungi hefði haldist eins og áður var. Nú er sagt í skýrslu Hafró að 40% af samdrætti þorskaflans stafi af því að þorskurinn sé ekki jafn þungur, hver fiskur, og áður var, þ.e. fjöldinn sé sá sami en veiðin gefi færri tonn. Við þessa framsetningu er margt að athuga en nærtækast er að veiða minni loðnu og auka þannig vöxt þorsksins sem kemur þá til hrygningar betur á sig kominn. Það er hins vegar áleitin spurning hvernig það má vera að í töflum Hafró um fjölda í hverjum árgangi fækkar alls um 100 milljónir þriggja til sex ára fiska milli skýrslna 2005 og 2007, þ.e. að um 167.000 tonn eru horfin úr töfluverkinu án veiða. Á móti var bætt inn í tíu ára fiskinn 2 milljónum einstaklinga og leiðrétt aftur í tímann, líklega á grunni gagna um tíu ára þorsk frá Grænlandi. Allt fram á þetta ár hefur því samt sem áður verið haldið fram af Hafró að frá Grænlandi væri lítils að vænta – e.t.v. seiðarek síðustu ár og langt í afrakstur þeirra ef hann yrði þá einhver.
    Nú vitum við betur vegna veiða á þorski við Austur-Grænland en furðulegt er að ekki skuli brugðist við og farið til þorskrannsókna við Austur-Grænland. Á ef til vill að afneita því sem þar er af stórum þorski eða þorski að vaxa upp? Passar það ekki inn í svartsýnisspár sem krefjast þess nú að við veiðum minna af þorski en dæmi eru um sl. 100 ár, ef frá eru skilin heimsstyrjaldarárin og frostaveturinn 1918? Óháð rannsókn á töfluverkinu og orsökum tapaðs fallþunga hjá þorskinum væri nauðsyn. Eftir því sem dýpra er grafið í þau gögn vaxa efasemdir um trúverðugleikann.

Hverjar eru orsakirnar?
    Af hverju léttist fiskur? Er hægt að finna beina samsvörun í aðalfæðu þorsksins og t.d. stærð loðnustofnsins? Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi þingmaður og varaformaður Frjálslynda flokksins, hefur skoðað þessi mál vel í gögnum um afla og stærð loðnustofnsins með tilliti til þess hvort þorskurinn er vel haldinn eða ekki þegar loðnustofninn er stór eða lítill. Samræming lítils þunga hvers þorsks í stofninum við lítinn loðnustofn sýnir mikla fylgni við minni fallþunga þegar loðnustofninn er lítill. Sjá línuritið hér á eftir sem sótt er í gagnasafn Hafró.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Afli og sókn.
    Ekki er að sjá minnkandi afla á sóknareiningu báta eða togara, þó að núorðið sé mjög sjaldan um beina þorskveiðisókn að ræða og mikið um það að allir séu á skrapveiðum allan ársins hring eins og á dögum skrapdagakerfisins sem svo var kallað. Það er í raun merkilegt að kvótakerfið skuli engu hafa skilað okkur í uppbyggingu þorskstofnsins öll þessi ár sem byggja átti upp þorskstofninn en hefur í raun valdið því á nýrri öld að allir, smáir sem stórir, eru í leit að öðrum fiski en þorski alla daga ársins og lítill þorskkvóti leiðir af sér aukið brottkast ungþorsks. Það er hörmuleg niðurstaða að henda verðmætum.

Atvinnu- og efnahagslegar áherslur.
    Við svo mikinn niðurskurð sem ákveðinn var af sjávarútvegsráðherra, að leyfa aðeins 130.000 tonna þorskafla, er nú þegar ljóst að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnar ná engan veginn að bæta þann atvinnu- og tekjumissi sem flestar sjávarbyggðir verða fyrir. Meira en 60.000 tonna niðurskurður þorskafla milli ára setur margar sjávarbyggðir, einkum þær minni sem eingöngu byggja á botnfiskveiðum og hafa mestar tekjur af þorskveiði, nánast í vonlausa stöðu til að viðhalda atvinnu og tekjum fólksins. Það eina sem sjávarútvegsráðherra virðist vera með á hreinu við þessa ákvörðun eru þau ummæli hans að ekkert geti komið í stað 60.000 tonna af þorski.
    Flutningsmenn þessarar tillögu eru fullvissir um að í þeim fjölmörgu sjávarbyggðum sem byggja svo til alla afkomu sína á botnfiskveiðum verði skaðinn ekki bættur með mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Flutningsmenn telja einnig að fiskifræðileg rök Hafró fyrir róttækum niðurskurði þorskaflans séu ekki rétt og með öllu ástæðulaust að vega svo að fólki á landsbyggðinni, utan þenslusvæða, svo sem leiðir af niðurskurði þorskveiða um 60.000 tonn. Flutningsmenn leggja til að fyrri stefnu verði haldið, að aldrei megi draga meira úr veiði á þorski milli ára en um 30.000 tonn. Enn fremur leggja flutningsmenn til að þorskveiði verði aukin aftur sem allra fyrst um 40.000 tonn á þessu fiskveiðiári. Það er mat flutningsmanna eina raunhæfa mótvægisaðgerðin og kemur þeim svæðum mest til góða sem hafa mátt þola neikvæðan hagvöxt á undanförnum árum og einnig mikla fólksfækkun sem nú verður að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Það þarf þónokkurn kjark hjá sjávarútvegsráðherra til þess að endurmeta málin en það er í raun eina skynsamlega niðurstaðan í þeirri stöðu sem þau eru komin í.