Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 19. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 19  —  19. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Birkir J. Jónsson, Guðni Ágústsson, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson.



1.      gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      1. tölul. orðast svo: að veita námsmönnum námslán og námsstyrki samkvæmt lögum þessum.
     b.      4. tölul. orðast svo: að setja reglur um úthlutun námslána og breytingu námslána í styrki samkvæmt lögum þessum.

2.      gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Eðlileg námsframvinda í námsgrein miðast við reglur í þeim skóla þar sem nám er stundað.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Þriðjungur af upphæð námsláns breytist í styrk ljúki námsmaður lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla sem háðar eru samþykki menntamálaráðherra. Ljúki námsmaður ekki lokaprófum samkvæmt reglum viðkomandi skóla og á tilskildum tíma og geti hann ekki framvísað vottorði um lögmæt forföll verður ekki af styrkveitingu. Styrkurinn er skattfrjáls og óháður tekjum viðkomandi námsmanns. Í vafatilvikum sker stjórn sjóðsins úr um hvort námsmaður telst hafa lokið lokaprófum á tilskildum tíma.

3.      gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna orðast svo: Um námslán og námsstyrki.

4.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á árunum 2003–2005 var brottfall nemenda í háskólum landsins á bilinu 19–57% eftir eins árs nám. Það var meira meðal nemenda ríkisháskólanna en þeirra einkareknu. Brottfall í svo miklum mæli er menntakerfinu dýrt og mikilvægt er að sporna við því með tiltækum ráðum. Öflug náms- og starfsráðgjöf er mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni en auk þess má nýta hagræna hvata til þess að hvetja námsmenn til að ljúka námi sem þeir hefja.
    Víða á Norðurlöndunum tíðkast að verðlauna námsmenn fyrir að ljúka formlegu námi með viðunandi hætti og á tilskildum tíma með því að breyta hluta námslána þeirra í óafturkræfan styrk. Í því er fólginn sparnaður fyrir menntakerfið í heild þar sem hvati til þess að ljúka námi á tilsettum tíma er aukinn verulega og sparnaður næst á móti í menntakerfinu. Í frumvarpi þessu er lagt til að Íslendingar feti í fótspor frændþjóða sinna með viðlíka tilhögun. Íslenska leiðin verði sú að ljúki námsmaður námi samkvæmt reglum viðkomandi skóla og á tilskildum tíma breytist þriðjungur af námsláni hans í óafturkræfan styrk sem hvorki verði tekjutengdur eða skattlagður. Víðast hvar á Norðurlöndunum eru námsstyrkir ekki bundnir því skilyrði að námsmaður ljúki formlegu námi en hér er lagt til að svo verði. Breyting af þessu tagi hvetur mjög til þess að námsmenn ljúki námi á þeim tíma sem skólinn miðar við. Þó er gert ráð fyrir að námsmenn sem ljúka námi ekki á tilskildum tíma en geta framvísað vottorði um lögmætar tafir njóti þessara breytinga. Lögmætar tafir eru skilgreindar af stjórn LÍN en gætu m.a. verið langtímaveikindi, fæðingarorlof og slys sem hamla námi tímabundið.
    Áætlaður kostnaður við þessa lagabreytingu er um 1,6 milljarðar kr. Útlán LÍN eru um 9,5 milljarðar kr. í ár (2007) og eru áætluð 10,7 milljarðar kr. árið 2008. Árlegt framlag ríkisins er samkvæmt nýjustu útreikningum Ríkisendurskoðunar 51% af heildarútlánum sem skýrist af vaxtaniðurgreiðslum annars vegar og afföllum hins vegar. Í heildina mundi kosta rúma 3 milljarða kr. að breyta þriðjungi námslána í styrk en þar sem helmingurinn er nú þegar ríkisframlag vegna áður greindra ástæðna er breytingin hér metin á 1,6 milljarða kr. Á móti kemur sparnaður í menntakerfinu ljúki námsmenn námi á tilskildum tíma.
    Gert er ráð fyrir að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skeri úr um álitamál sem kunna að rísa vegna þessa. Líkt og öðrum úrskurðum stjórnar má skjóta þeim til málskotsnefndar sem skipuð er af menntamálaráðherra sbr. 5. gr. a í lögunum.
    Að sama skapi þarf í þessu samhengi að huga að stöðu þeirra nemenda sem stunda lánshæft lán en kjósa að taka ekki lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á síðasta námsári voru 16–18.000 nemendur í háskólum og sérskólum á háskólastigi á Íslandi. Lánþegar LÍN á sama tímabili voru rétt rúmlega 9000 talsins. Einhver hluti þeirra námsmanna sem ekki taka lán hjá LÍN er ekki lánshæfur en þó má gera ráð fyrir að þúsundir námsmanna kjósi að framfleyta sér með öðrum hætti en með lántöku. Framsóknarmenn vilja meta reynsluna af þessu máli þegar fram í sækir til að gæta jafnræðis meðal námsmanna og skoða alvarlega þann möguleika að jafna möguleika námsmanna til þess að hljóta styrk, bæði þeirra sem taka lán til framfærslu á námstíma og hinna sem kjósa að framfleyta sér með öðrum hætti. Mætti hugsa sér að þeir gætu sótt um styrk að námi loknu, þar sem tekið yrði tillit til tekna viðkomandi á námstímanum. Styrkirnir yrðu þó tekjutengdir með sama hætti og útreikningar og lánshæfi lántaka gera ráð fyrir.